Handbolti

Spánverjar í úrslit eftir sigur á Frökkum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Spánverjar vilja ná í fyrsta Evrópumeistaratitilinn
Spánverjar vilja ná í fyrsta Evrópumeistaratitilinn vísir/epa
Spánverjar leika til úrslita á Evrópumótinu í handbolta eftir nokkuð öruggan sigur á Frökkum í fyrri undanúrslitaleik mótsins.

Strax frá upphafi leiks voru Spánverjar með fótin aðeins framar en Heimsmeistararnir og spiluðu frábæra vörn sem kom í veg fyrir franskt mark í tíu mínútur undir lok fyrri hálfleiks. Staðan í leikhléi var 15-9 fyrir Spánverja.

Seinni hálfleikurinn var meira af því sama, Spánverjar spiluðu mun betur og voru með Frakkana í greipum sér. Þeir komust mest í níu marka forystu í seinni hálfleik.

En Frakkar eru ekki margverðlaunaðir fyrir ekki neitt og náðu að koma til baka og skora 6 mörk í röð sem minnkaði muninn niður í þrjú mörk þegar tíu mínútur lifðu af leiknum. Þá sögðu Spánverjar stopp og fóru að lokum með 27-23 sigur.

Leikurinn var fyrsti tapleikur Frakka á mótinu. Hinn 38 ára gamli Arpad Sterbik var kallaður inn í hóp Spánverja vegna meiðsla Gonzalo Vargas og hann skilaði svo sannarlega sínu, kom inn og varði 3 vítaköst.

Það kemur í ljós seinna í kvöld hverjir verða andstæðingar Spánverja í úrslitunum, en þetta er í fimmta skipti sem Spánverjar leika til úrslita. Þeir hafa þó aldrei náð að hampa Evrópumeistaratitlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×