Handbolti

Kristján sá fyrsti hjá Svíum síðan að Bengt Johansson hætti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Andrésson, þjálfari sænska landsliðsins í handbolta.
Kristján Andrésson, þjálfari sænska landsliðsins í handbolta. Vísir/EPA
Kristján Andrésson kom í gær sænska handboltalandsliðinu í undanúrslit á Evrópumótinu í Króatíu en Svíar enduðu í öðru sæti í sínum milliriðli og fylgja Frökkum í leiki um verðlaun á mótinu.

Þetta er í fyrsta sinn í sextán ár sem Svíar komast svo langt á Evrópumótinu en sænska landsliðið vann fjögur af fyrstu fimm Evrópumótunum frá 1994 til 2002.

Bengt Johansson þjálfaði sænska landsliðið á þessum árum og gerð liðið fjórum sinnum að Evrópumeisturum. Svíar hafa unnið samtals átta gull á stórmótum í handbolta og Bengt þjálfaði sex þessara liða.

Einu gullverðlaunin sem Svíar hafa unnið án liðsinnis Bengt Johansson voru titlar liðsins á HM 1954 og HM 1958.

Bengt hætti að þjálfa sænska landsliðið 2004 og síðan hefur engum þjálfara tekist að komast sænska liðinu í leiki um verðlaun á EM fyrr en að Kristjáni tókst það í gær.

Íslenski þjálfarinn er þar með búinn að koma sænska landsliðinu þangað sem liðið var fastagestur í þjálfartíð Bengt Johansson.

Hér fyrir neðan má sjá gengi sænska landsliðsins undanfarin ár.

Svíar á Evrópumótinu í handbolta:

1994 í Portúgal (Bengt Johansson þjálfaði) - Evrópumeistarar

1996 á Spáni (Bengt Johansson) - 4. sæti

1998 á Ítalíu (Bengt Johansson) - Evrópumeistarar

2000 í Króatíu (Bengt Johansson) - Evrópumeistarar

2002 í Svíþjóð (Bengt Johansson) - Evrópumeistarar

2004 í Slóveníu (Bengt Johansson) - 7. sæti

2006 í Sviss  - Ekki með

2008 í Noregi (Ingemar Linnéll) - 5. sæti

2010 í Austurríki (Staffan Olsson) - 15. sæti

2012 í Serbíu (Staffan Olsson og Ola Lindgren) - 12. sæti

2014 í Danmörku (Staffan Olsson og Ola Lindgren) - 7. sæti

2016 í Póllandi (Ola Lindgren og Staffan Olsson) - 8. sæti

2018 í Króatíu (Kristján Andrésson) - Undanúrslit




Fleiri fréttir

Sjá meira


×