Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva, segir ekki hægt að bera saman fiskeldisiðnaðinn hér á landi og í Noregi í ljósi ummæla Óttars Yngvasonar í Fréttablaðinu í gær.
„Í fyrsta lagi er það þannig að í Noregi eru núna framleiddar 1,3 milljónir tonna af laxi. Fiskeldið þar hefur verið að byggjast sveiflukennt upp á síðustu fjörutíu árum. Við erum að slíta barnsskónum og heildarframleiðsla af laxi hjá okkur í sjókvíum í fyrra var í kringum 10.000 tonn. Það sjá allir að það er ekki hægt að leggja ofurskatta á grein sem er í uppbyggingu, enda gerðu Norðmenn það ekki fyrr en þeir voru komnir með um 500.000 tonna framleiðslu. Þá fóru þeir að beita þeirri gjaldtöku sem þekkist hjá þeim í dag,“ segir Einar og bætir við að leyfin sem veitt eru í Noregi séu varanleg leyfi, en tímabundin leyfi séu gefin út á Íslandi.
„En þrátt fyrir að við séum stutt komin þá eru fiskeldisfyrirtæki farin að skila inn verulegum tekjum til sveitarfélaga þar sem þau starfa. Við erum með væntingar um 70-130.000 tonna ársframleiðslu og miðað við það getum við verið að tala um að tekjur sveitarfélaga verði upp á um það bil tvo milljarða króna.“
Einar segir að það séu góðar ástæður fyrir því að erlent eignarhald sé áberandi hjá fiskeldisfyrirtækjum hérlendis. „Það hefur verið lögð áhersla á að fá erlent fjármagn inn í atvinnugreinar hér á landi. Því miður kom ekki inn mikið fé frá Íslendingum þegar leitað var eftir fjárfestingu í fiskeldi á sínum tíma. En með því að fá inn erlenda aðila með þekkingu og reynslu í greininni þá styrkist iðnaðurinn hér.“
ÍR
Grindavík