Handbolti

Svíar rúlluðu Hvít-Rússum upp

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kristján á hliðarlínunni í Króatíu
Kristján á hliðarlínunni í Króatíu vísir/ernir
Lærisveinar Kristjáns Andréssonar í sænska landsliðinu í handbolta unnu öruggan sigur á Hvíta-Rússlandi í milliriðli eitt á Evrópumótinu í Króatíu.

Svíar byrjuðu leikinn mun betur og voru fljótt komnir með fjögurra marka forystu, 6-2. Þá vöknuðu Hvít-Rússar aðeins til lífsins, en þó ekki meir en svo að þeir náðu mest að koma muninum niður í tvö mörk.

Svíar gáfu í á lokametrum fyrri hálfleiks og fóru með fimm marka forskot í hálfleikinn, 16-11. Hvít-Rússar gerðu annað áhlaup í upphafi seinni hálfleiks, en mennirnir hans Kristjáns náðu að standa það af sér og þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var munurinn aftur kominn í fimm mörk.

Þaðan juku Svíar hægt og rólega forskotið og enduðu leikinn með níu marka sigri 29-20.

Staðan í milliriðli eitt fyrir lokaumferðina er því þannig að Frakkar eru í efsta sæti með 8 stig. Þar á eftir koma Svíar og Króatar með sex stig. Í loka umferðinni mætast Frakkar og Króatar innbyrðis og Svíar mæta Norðmönnum. Efstu tvö liðin fara í undanúrslit keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×