Handbolti

Ísland var með bestu vítamarkvörsluna á EM 2018

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. Vísir/Ernir
Björgvin Páll Gústavsson hjálpaði íslenska handboltalandsliðinu upp í efsta sæti á einum flottum tölfræðilista á Evrópumótinu í handbolta sem lauk í Króatíu um helgina.

Ísland var nefnilega með bestu vítamarkvörsluna á mótinu en markverðir íslenska liðsins vörðu 43 prósent vítanna sem þeir reyndu við í leikjunum sínum á móti Svíum, Króötum og Serbum.

Íslensku markverðirnir voru meira segja með yfirburðarforystu en þeir vörðu tíu prósentum betur í vítum en næsta lið sem var Hvíta-Rússland. Danir voru í þriðja sæti og Frakkar í því fjórða.

Heimamenn í Króatíu ráku síðan lestina en þeir voru með 34 prósent verri vítamarkvörslu en Ísland þar sem markverðir króatíska liðsins vörðu aðeins 2 af 23 vítum sem þeir reyndu við.

Björgvin Páll Gústavsson varði helming þeirra víta sem hann reyndi við (3 af 6) og deildi þar efsta sætinu á listanum yfir bestu vítamarkvörslu markvarða með þeim Viachaslau Saldatsenska frá Hvíta-Rússlandi og Arpad Sterbik frá Spáni.

Það var mikið gert úr innkomu Arpad Sterbik í Evrópumótinu en hann spilaði aðeins tvo síðustu leikina og hjálpaði Spánverjum að vinna Evrópumeistaratitilinn. Sterbik varði frábærlega og ekki síst í vítaköstum. Hann náði hinsvegar þrátt fyrir það ekki að komast upp fyrir okkar mann á listanum.

Það vekur samt furðu að besta markvarsla íslensku markvarðanna hlutfallslega hafi verið í vítum. Þeir vörðu nefnilega betur í vítaköstum (43%) en þeir gerðu í langskotum (40%), úr hornum (32%) og af línu (20%). Verst gekk síðan í gegnumbrotunum en þar var markvarslan aðeins 12 prósent.

Þessar tölur segja okkar að það væri kannski bara best fyrir íslensku strákana að brjóta bara nógu oft á mótherjunum og senda þá á vítapunktinn. Kannski ekki rökrétt hugsun en tölurnar hafa talað sínu máli.

Besta vítamarkvarsla markvarða á EM 2018: (Sjá hér)

1. Viachaslau Saldatsenka, Hvíta-Rússlandi 50 prósent (4 af 8)

1. Björgvin Páll Gústavsson, Íslandi 50 prósent (3 af 6)

1. Arpad Sterbik, Spáni 50 prósent (3 af 6)

4. Jannick Green, Danmörku  40 prósent (4 af 10)

5. Thomas Bauer, Austurríki 38 prósent (3 af 8)

5. Urban Lesjak, Slóveníu 38 prósent (3 af 8)

7. Vincent Gérard, Frakklandi  31 prósent (4 af 13)

8. Andreas Wolff, Þýskalandi 29 prósent (4 af 14)

8. Nikola Mitrevski, Makedóníu 29 prósent (2 af 7)

10. Martín Galia, Tékklandi 27 prósent (3 af 11)

Besta vítamarkvarsla liða á EM 2018: (Sjá hér)

1. Ísland 43 prósent (3 af 7)

2. Hvíta Rússland 33 prósent (4 af 12)

3. Danmörk 30 prósent (8 af 27)

4. Frakkland 28 prósent (7 af 25)

5. Tékkland 25 prósent (7 af 28)

6. Austurríki 23 prósnet (3 af 13)

7. Slóvenía 23 prósent (5 af 22)

Hvar stóðu íslensku markverðirnir sig best:

1. Víti - 43 prósent (3 af 7)

2. Langskot - 40 prósent (17 af 42)

3. Horn - 32 prósent (9 af 28)

4. Hraðaupphlaup - 21 prósent (3 af 14)

5. Lína - 20 prósent (1 af 5)

6. Gegnumbrot - 12 prósent (2 af 17)


Tengdar fréttir

Ekki skorað minna í átján ár

Eftir að hafa átt eitt besta sóknarlið heims í mörg ár hefur sóknarleik íslenska handboltalandsliðsins hrakað mikið á síðustu árum. Aðeins eitt lið skoraði færri mörk en Ísland í riðlakeppninni á EM 2018 í Króatíu.

Lokakafli Íslendinga á móti Serbum lítur nú enn verr út

Ísland klúðraði Evrópumótinu í Króatíu á skelfilegum lokakafla á móti Serbum og lokakafli Íslendinga í þessum leik á móti Serbum lítur nú enn verr út eftir mjög slaka frammistöðu Serbíu í milliriðlinum í Zagreb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×