Erlent

Þjóðverjar efast um ágæti nýrrar ríkisstjórnar í landinu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Á myndinni eru Horst Seehofer, CSU, Angela Merkel, CDU, og Martin Schulz, SPD.
Á myndinni eru Horst Seehofer, CSU, Angela Merkel, CDU, og Martin Schulz, SPD. Vísir/AFP
Allnokkrir þýskir fjölmiðlar eru ekki bjartsýnir á að áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf Kristilegra demókrata (CDU/CSU) og Jafnaðarmannaflokksins (SPD) lifi út kjörtímabilið. Tilkynnt var um að samkomulag hefði náðst á miðvikudag eftir langvarandi stjórnarkreppu í landinu. Enn eiga flokksmenn þó eftir að greiða atkvæði um samstarfið og því er ekkert í höfn þótt líklegt teljist að samstarf flokkanna í ríkisstjórn verði samþykkt.

Kurt Kister, ritstjóri dagblaðsins Süddeutsche Zeitung, sagði í leiðara sínum í gær að ríkisstjórnin ætti ekki eftir að endast lengi. Þýska blaðið Bild lýsti einnig áhyggjum sínum og á forsíðunni stóð „Kanslari sama hvað“. Vildi miðillinn meina að Merkel hefði selt sig Jafnaðarmannaflokknum og lagt stefnumál sín til hliðar til að ná að mynda stjórn. „Merkel gefur SPD stjórntaumana,“ sagði enn fremur í Bild.

Sjá einnig: Enn teygist á valdatíð Angelu Merkel

Reuters greinir frá því að Merkel þurfi nú að verja samkomulag sem sé flokki hennar óhagstætt. Flokkurinn missi meðal annars hið mikilvæga fjármála- og efnahagsráðuneyti í skiptum fyrir áframhaldandi veru Merkel í kanslarastólnum. Þá segi andstæðingar samkomulagsins að þrátt fyrir það hafi jafnaðarmönnum mistekist að draga CDU til vinstri. Áfram stefni í aðhald í ríkisrekstri.

Jafnaðarmannaflokkurinn er í mikilli lægð og sagði Martin Schulz, leiðtogi flokksins, á kosninganótt að flokkurinn yrði í stjórnarandstöðu á kjörtímabilinu vegna lélegs gengis í kosningunum. Fékk flokkurinn rétt rúm 20 prósent atkvæða og hafði ekki fengið minna frá því fyrir seinna stríð. Nú mælist flokkurinn hins vegar með enn minna fylgi, 18 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×