Sport

Keppti í fötum af bróður sínum sem lést í október

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lillis, sem er 23 ára, er ríkjandi heimsmeistari í skíðafimi
Lillis, sem er 23 ára, er ríkjandi heimsmeistari í skíðafimi vísir/ap
Bandaríski skíðakappinn Jonathon Lillis keppti í úrslitum í skíðafimi á Vetrarólympíuleikunum í PyeongChang í gær í fötum af bróður hans sem féll frá í október.

Yngri bróðir Lillis, Mikey, lést í svefni aðeins sautján ára að aldri fyrr í vetur og var Lillis næstum hættur keppni eftir áfallið, en þeir bræður höfðu keppt saman í skíðafiminni.

Heimsmeistarinn frá því í fyrra ákvað þó að keppa á Ólympíuleikunum og gera það til heiðurs bróðurs síns. Hann klæddist landsliðsbúningi bróðurs síns í ferðum sínum í gær og er með smá af ösku hans í meni sem hann hefur alltaf á sér.

„Ég hef komist að því hversu erfitt lífið getur verið og þú þarft að lifa hvern dag til fulls. Stundum er lífið ömurlegt en þú þarft að hafa eitthvað til þess að draga þig upp úr myrkrinu og skíðafimin gerir það fyrir mig,“ sagði Lillis sem endaði í áttunda sæti í úrslitunum.

Þriðji bróðirinn, Chris, keppir einnig í íþróttinni en hann meiddist fyrir leikana í PeyongChang. Þeir bræður Jonathon og Chris ætla þó að mæta sterkari til leiks eftir fjögur ár.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá skíðafiminni. Oleksandr Abramenko vann gullið og var fyrsti Úkraínumaðurinn til að vinna einstaklingsíþrótt á Vetrarólympíuleikum. Jia Zongyang frá Kína vann silfur og Ilia Burov frá Rússlandi brons. Jonathon Lillis lenti í sjöunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×