Sport

Rússar aftur með á Ólympíuleikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rússar unnu gull í íshokkí karla á Ólympíuleikunum í Pyeongchang.
Rússar unnu gull í íshokkí karla á Ólympíuleikunum í Pyeongchang. Vísir/Getty
Rússar hafa ekki fengið að keppa undir fána Rússlands á síðustu tveimur Ólympíuleikum en nú segjast Rússar hafa fengið aftur fullt keppnisleyfi á Ólympíuleikunum.

Rússneska Ólympíusambandið segist vera komið með grænt ljós frá Alþjóðaólympíunefndinni en þetta kom fram í rússnesku sjónvarpi í dag.

Rússneski fáninn var hvergi sjáanlegur á sumarólympíuleikunum í Ríó eða á vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang en það var þó rússneskt íþróttafólk sem tók þátt á báðum leikum.





Íþróttafólkið sem gat sýnt fram á það að það hafi ekki æft eða keppt í skjóli hinnar skipulögðu lyfjanotkunnar rússneska íþróttasambandsins fékk keppnisrétt á leikunum.

168 slíkir íþróttamenn frá Rússlandi kepptu sem dæmi á leikunum í Pyeongchang. Rússneski hópurinn vann alls sautján verðlaun á leikunum þar af tvenn gullverðlaun.

Forráðamenn Alþjóðaólympíunefndarinnar gáfu það út í tengslum við lokaathöfn Ólympíuleikanna í Pyeongchang í Suður Kóreu að Rússa fengju aftur fullt keppnisleyfi svo framarlega sem ekki kæmu upp fleiri lyfjamál hjá íþróttafólki þjóðarinnar.





Tveir Rússar féllu á lyfjaprófi á leikunum í Pyeongchang en þeir kepptu þar undir fána Alþjóðaólympíunefndarinnar. Þau mál voru komin upp þegar IOC lýsti þessu yfir.

Nú fagna Rússar því að þeir séu aftur komnir með fullt keppnisleyfi á næstu Ólympíuleikum en þeir fara fram í Tókýó 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×