Erlent

Akilov segir að ferðamenn í Stokkhólmi hafi verið skotmarkið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fimm létust og á annan tug slösuðust í árás mannsins.
Fimm létust og á annan tug slösuðust í árás mannsins. Vísir/afp
Rakhmat Akilov, maðurinn sem ákærður er fyrir hryðjuverk með því að hafa ekið á gangandi vegfarendur í Stokkhólmi á síðasta ári, bar vitni í dómsmálinu gegn honum í dag. Hann segir ferðamenn hafa verið aðalskotmarkið.

Úsbekinn ók vörubíl eftir Drottningargötunni í Stokkhólmi síðdegis á föstudegi þann 7. apríl síðastliðinn. Fimm manns fórust í árásinni. Hann var sérstaklega spurður um af hverju hann hefði valið þá dagsetningu sem hann valdi.

„Ég gerði ráð fyrir að síðdegis yrðu ekki mörg börn á ferli en þeim mun fleiri ferðamenn,“ sagði Akilov. „Um helgar eru margir ferðamenn frá ríkjum NATO á ferli um Stokkhólm.“

Akilov sagði að markmið hans hefði einnig verið að drepa Svía en hann segir markmið árásarinnar hafa verið það að fá sænsk yfirvöld til þess að hætta stuðningi við árásir á hryðjuverkasamtökin ISIS.

Í frétt SVT kemur fram að Akilov hafi verið yfirvegaður þegar hann bar vitni og að Drottningargatan, ein helsta verslunargata Stokkkhólms, hafi verið valin þar sem hún væri ein af helstu götunum í miðborg Stokkhólms.

Þá kom einnig fram í máli Akilov að hann hafði ekki gert ráð fyrir að lifa árásina af og í aðdraganda árásinnar hafi hann verið beðinn um að taka árásina upp á myndband.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×