Blökkumenn hafa ekki verið sérstaklega áberandi í íshokkí en það hefur breyst á síðustu árum. Þeir blökkumenn sem hafa náð árangri í íþróttinni hafa þó oft þurft að þola óþolandi níð frá áhorfendum.
NHL-liðið Chicago Blackhawks er nú búið að setja fjóra af sínum stuðningsmönnum í bann fyrir kynþáttaníð.
Það var Devante Smith-Pelly, leikmaður Washington Capitals, sem mátti þola kynþáttaníðið. Leikmaðurinn sat í skammarkróknum er fjórmenningarnir byrjuðu að kyrja „körfubolti, körfubolti, körfubolti“.
Það var meira en forráðamenn Blackhawks geta sætt sig við og því fá þessir áhorfendur ekki að mæta aftur á leiki hjá félaginu.
Blackhawks hefur beðið leikmanninn afsökunar á hegðun stuðningsmannanna ef stuðningsmenn skal kalla.
