Karlmaður á fimmtugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald, eða til 13. apríl, á grundvelli almannahagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn hennar á ætluðum kynferðisbrotum mannsins, en viðkomandi var handtekinn í janúar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni en um er að ræða starfsmann barnaverndar Reykjavíkur sem grunaður er um að hafa beitt átta börn kynferðisofbeldi frá árinu 2000 til 2010.
Rannsókn málsins hefur miðað vel og stefnt er að því að henni ljúki fljótlega. Í framhaldinu verður málið sent embætti héraðssaksóknara, að því er segir í tilkynningu lögreglu.
Kæra barst lögreglu á hendur manninum í ágúst síðastliðnum en hann var ekki handtekinn fyrr en í janúar. Hefur lögregla viðurkennt mistök við meðferð málsins. Þá leiddi úttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á verkferlum og reglum er varða tilkynningar og ábendingar sem berast til Barnaverndar Reykjavíkur í ljós að mistök áttu sér stað þegar ekki var brugðist við tilkynningu um manninn árið 2008.
Fréttin hefur verið uppfærð.

