Fótbolti

Tölvuþrjótar höfðu milljónir af Lazio

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Liðsmenn Lazio fagna marki
Liðsmenn Lazio fagna marki vísir/getty
Ítalska félagið Lazio féll í gildru tölvuþrjóta og varð af 2 milljónum evra eftir því sem ítalskir fjölmiðlar greina frá í dag.

Il Tempo segir frá því að liðið, sem hefur verið í baráttunni í efstu sætum Seria A í vetur, hafi verið platað til þess að leggja síðustu afborgunina af kaupunum á Stefan de Vrij á vitlausan bankareikning.

Lazio keypti Hollendinginn frá Feyenoord árið 2014. Greiðsla fyrir leikmanninn kom í áföngum og svo virðist sem óprúttnir aðilar með vitneskju um smáatriði samningsins hafi sent tölvupóst á Lazio og beðið um síðustu tvær milljónirnar.

Feyenoord segist ekki hafa fengið peninginn og því vaknaði grunur um að ekki væri allt með feldu. Il Tempo segir að yfirvöld á Ítalíu hafi náð að rekja peninginn á hollenskan bankareikning sem er ekki í eigu Feyenoord.

Varnarmaðurinn hefur spilað 36 leiki fyrir Lazio á tímabilinu og skorað í þeim 5 mörk. Sögusagnir herma að stórlið á borð við Inter Milan og Manchester City hafi áhuga á leikmanninum sem verður samningslaus í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×