Fótbolti

Íslenska landsliðið gæti mest unnið sér inn 915 milljónir í Þjóðardeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir eru að búa til pening fyrir KSÍ.
Íslensku strákarnir eru að búa til pening fyrir KSÍ. Vísir/Anton
Knattspyrnusamband Evrópu hefur gefið út verðlaunafé fyrir Þjóðardeildina sem fer af stað í haust en þar verður íslenska liðið í A-deild ásamt ellefu bestu knattspyrnulandsliðum Evrópu.

Það er mikill munur á verðlaunafénu hvort þú spilar í A-deild eða B-deild. Liðin geta mest unnið sér inn 7,5 milljónir evra í A-deildinni en hámarksverðlaunafé þjóða í B-deildinni er „bara“ 2 milljónir evra eða næstum því fjórum sinnum minna.  

7,5 milljónir evra eru 915 milljónir íslenskra króna en tvær milljónir evra eru rúmar 244 milljónir.

Íslenska landsliðið er þegar búið að tryggja Knattspyrnusamband Íslands 1,5 milljónir evra en það fá allar þjóðirnar í A-deild fyrir að taka þátt. 183 milljónir eru því öruggar í kassann hjá KSÍ.

Þjóðirnar í B-deild fá eina milljón evra (122 milljónir), þjóðirnar í C-deildinni 750 þúsund evrur (91 milljón) og þjóðirnar í D-deildinni fá bara 500 þúsund evrur (61 milljón). Það munar því miklu að vera í hópi tólf þjóða sem skipa A-deildina.





Ef Ísland nær að vinna riðilinn sinn þá fær KSÍ 183 milljónir íslenskra króna til viðbótar auk þess að allar fjórar þjóðirnar í úrslitum fá verðlaunfé fyrir sín lokasæti.

Landsliðið í fyrsta sæti fær 4,5 milljónir evra (549 milljónir), liðið í öðru sæti fær 3,5 milljónir evra (427 milljónir), liðið í þriðja sæti fær 2,5 milljónir evra (305 milljónir) og liðið í fjórða sæti fær 1,5 milljónir (183 milljónir).





Takist íslenska landsliðinu að vinna sinn riðil þá fær liðið alltaf að minnsta kosti þrjár milljónir evra, 366 milljónir íslenskra króna, fyrir þann árangur.

Íslenska landsliðið er í riðli með Belgíu og Sviss en fyrsti leikur liðsins er úti í Sviss 8. september. Heimaleikirnir fara fram 11. september (Belgía) og 15. október (Sviss).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×