Erlent

Þúsundir mótmæla handtöku Puigdemont

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Barcelona nú í kvöld.
Frá Barcelona nú í kvöld. Vísir/AFP
Þúsundir íbúa Barcelona hafa mótmælt handtöku Carles Puigdemont í Þýskalandi í dag. Um er að ræða sjálfstæðissinna sem vilja sjálfstæði Katalóníu frá Spáni og heita þau því að handtaka Puigdemont, sem var forseti heimastjórnar héraðsins, muni ekki koma í veg fyrir frelsi héraðsins.

Samkvæmt blaðamönnum AFP fréttaveitunnar köstuðu sumir mótmælendur ruslatunnum að lögregluþjónum í óeirðarbúningum sem brugðust við með því að slá mótmælendur með kylfum eða jafnvel með því að skjóta viðvörunarskotum í loftið.



Puigdemont flúði til Belgíu skömmu eftir að ríkisstjórn Spánar vék honum úr starfi í október. Það var gert eftir þjóðaatkvæðagreiðslu í Katalóníu sem ríkisstjórn Spánar segir hafa verið ólöglega. Héraðsstjórn Katalóníu var leyst upp og Madríd tók yfir stjórn héraðsins.

Sjá einnig: Átök í Katalóníu

Hann var meðal annars ákærður fyrir landráð og á yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsisvist. Níu aðrir leiðtogar sjálfstæðissina Katalóníu sitja í fangelsi. Fimm aðrir eru í útlegð. Á föstudaginn úrskurðaði Hæstiréttur Spánar að ákæra ætti 25 leiðtoga héraðsins fyrir landráð, fjárdrátt og að hlýða ekki skipunum ríkisins.

Spænsk yfirvöld gáfu út alþjóðlega handtökuskipun á hendur honum þegar hann var í Finnlandi fyrr í mánuðinum og var hann handtekinn í Þýskalandi í dag. Puigdemont mun fara fyrir dómara á morgun og í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort hann verði framseldur til Spánar.



Mótmælin í Barcelona hafa að miklu leyti beinst að Evrópu en ekkert ríki Evrópusambandsins studdi sjálfstæðisviðleitni Katalóníu. Í kjölfar umdeildrar þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra felldu yfirvöld Spánar niður sjálfsstjórn Katalóníu og héldu nýjar kosningar. Aðskilnaðarsinnar hlutu þó aftur nauman meirihluta.


Tengdar fréttir

Puigdemont er sagður hafa stungið af til Belgíu

Alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur fyrrum forseta heimastjórnar Katalóníu. Hann var staddur í Finnlandi þegar handtökuskipunin var gefin út en samkvæmt finnskum þingmanni er hann farinn úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×