Irina Sazanova úr Ármanni varð í dag Íslandsmeistari í fjölþraut kvenna fjórða árið í röð en Íslandsmótið í áhaldafimleikum stendur nú yfir í Laugardalshöllinni.
Irina hafði betur eftir harða baráttu við Agnesi Suto og Dominiqua Belanyi. Sú fyrrnefnda stóð uppi sem sigurvegari á bikarmótinu fyrir tveimur vikum en gerði sig seka um mistök á slá í dag sem varð henni að falli í dag.
Svo fór að Irina vann með 50,050 stig og var hún með næstum tveggja stiga forystu á Dominiqua. Agnes varð þriðja.
Það var einnig hart barist í karlaflokki en aðeins hálfu stigi munaði á Valgarði Reinhardssyni og Eyþóri Erni Baldurssyni fyrir síðustu greinina sem var keppni á svifrá. Þar fór Valgarð á kostum og tryggði sér titilinn, annað árið í röð. Stefán Ingvarsson úr Björk varð í þriðja sæti.
Keppni heldur áfram á morgun en þá verður keppt í einstökum áhöldum.
Sport