Maðurinn sem grunaður er um að hafa banað bróður sínum, Ragnari Lýðssyni, á bænum Gýgjarhóli II í Biskupstungum um helgina ber fyrir sig minnisleysi sökum ölvunar við yfirheyrslur hjá lögreglu. RÚV greinir frá.
Á vef RÚV er rætt við Ólaf Björnsson, lögmann mannsins, sem segir að maðurinn hafi vaknað á laugardagsmorgun við orðinn hlut og ekki áttað sig á því hvað hefði gerst.
Hinn grunaði hringdi sjálfur í lögreglu á laugardaginn en hann var á Gýgjarhóli ásamt þriðja bróðurnum og voru þeir gestkomandi á bænum. Sá sem er í haldi er ábúandi á Gýgjarhóli II.
Segir á vef RÚV að málsatvik liggi ekki fyrir þar sem þriðji bróðurinn hafi farið að sofa á undan hinum tveimur og hafi því ekki orðið vitni að því sem gerðist á milli hinna bræðranna tveggja. Því liggi málið ekki fyrir að fullu enn og rannsaka þurfi málsatvik til hlítar.
Bráðabirgðaniðurstaða krufningar á líki mannsins sem fannst látinn sýnir að áverkar eru á líkinu sem leitt hafa hann til dauða. Það kom fram í tilkynningu frá lögreglu í gær. Er ábúandinn í gæsluvarðhaldi, grunaður um manndráp. Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hefur verið kærður til Landsréttar, sem hefur ekki kveðið upp úrskurð sinn.
Ekki náðist í lögregluna á Suðurlandi við vinnslu fréttarinnar.
Ber fyrir sig minnisleysi sökum ölvunar

Tengdar fréttir

Ummerki um átök á bænum þar sem maður lést
Maðurinn sem lést og tveir menn sem bíða nú skýrslutöku hjá lögreglu eru bræður.

Áverkar á líki mannsins sem leiddu hann til dauða
Fyrir liggur bráðabirgðaniðurstaða krufningar á líki manns sem fannst látinn að Gýgjarhóli II að morgni laugardagsins 31. mars s.l.