Skoðun

Tímavélar

Haukur Örn Birgisson skrifar
Öll gengum við í grunnskóla, flest í framhaldsskóla og sum í háskóla. Sama hvert skólastigið er, þá eru alltaf nokkrir ákveðnir fastapunktar sem eru órjúfanlegir skólagöngunni. Sá áhugaverðasti er árgangamót eða reunion á ensku.

Það er eitthvað svo stórkostlega skrítið við reunion-fyrirbærið að það ætti að vera sérstakt rannsóknarefni félagsfræðinga um allan heim. Grunnskóla-reunion standa þó upp úr, það er alveg á hreinu. Ekki vegna þess hversu skemmtileg þau eru, heldur vegna þess hvaða áhrif þau hafa á alla þá sem mæta. Sé til sönnun fyrir tilvist tímavélarinnar þá má finna hana á þessum merkilegu mannamótum.

Algjörlega óháð stöðu í samfélaginu og lífi þeirra almennt, þá breytast gestirnir í sömu 15 ára unglingana og þeir voru nokkrum áratugum áður. Þeir sem voru lúðalegir verða það aftur, gellurnar sem allir strákarnir voru skotnir í öðlast aftur einhvers konar vald yfir sömu (nú) miðaldra strákunum og gaurarnir sem börðu samnemendur sína í frímínútum njóta á ný óttablandinnar virðingar. Maður passar sig ósjálfrátt á því að segja ekkert sem gæti komið þeim úr jafnvægi. Valdamesti maður heims kæmist ekki hjá því að vera skíthræddur við gamla hrottann úr 10. bekk eða stelpuna sem hann þorði ekki að tala við í 8. bekk (og man enn símanúmerið hjá ... eða reyndar foreldrum hennar) – slík eru áhrif árgangamótanna. Tímavélin hrifsar alla um borð, miskunnarlaust.

Þó félagsfræðingar eigi enn eftir að rannsaka fyrirbærið, liggja samt nokkrar augljósar niðurstöður fyrir: Um leið og dagskránni lýkur losna allir úr álögunum, konurnar eldast betur en karlarnir og sem betur fer er þetta bara á 10 ára fresti.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×