Innlent

Dæmdur fyrir stórfellda líkamsárás á Spot

Birgir Olgeirsson skrifar
Dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. vísir/hanna
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann til tíu mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir stórfellda líkamsárás á skemmtistaðnum Spot árið 2014.

Maðurinn var fundinn sekur um að hafa hrint öðrum manni með báðum höndum þannig að hann féll í gólfið með þeim afleiðingum að fórnarlambið hlaut lífshættulega og alvarlega höfuðáverka.

Þar með talið heilamar í yfirborði ennisblaða og gagnaugablaða, yfirborðsáverka á litla heila vinstra megin, byrjandi blóðsöfnun undir heilahimnu á gagnauga hægra megin, blóð að framan vinstra megin og blæðingu milli heilahólfa framan til, innkýlt brot í hnakkablaðinu hægra megin og loft inni við bein rétt framan við Pétursbeinið.

Leiddi það til heilaskaða, meðal annars með varanlegri heyrnarskerðingu á hægra eyra, tapi á lyktar- og bragðskyni, hægari hugsun, gloppóttu minni, kvíða og þunglyndi, auk skerðingar á andlegu og líkamlegu þoli og úthaldi.

Dómur hafði fallið í málinu í héraði árið 2016. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar sem ómerkti hann  og vísaði aftur í hérað sökum þess að dómur héraðsdóms var ekki fjölskipaður.

Héraðsdómur Reykjavíkur sagði að manninum hefði mátt vera ljóst að það að hrinda ölvuðum manni fyrirvaralaust aftur fyrir sig gæti haft í för með sér afleiðingar. Voru afleiðingarnar raktar til gáleysis mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×