Áfrýjunarstríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna sakfelldi í dag Vojislav Seselj, serbneskan öfgaþjóðernissinna, fyrir stríðsglæpi í Balkanskagastríðinu á 10. áratugnum. Seselj var náinn bandamaður Slóbódans Milosevic, leiðtoga Serba í stríðinu.
Seselj var einnig fundinn sekur um glæpi gegn mannkyninu og var dæmdur í tíu ára fangelsi. Sneri áfrýjunardómstóllinn við sýknu Alþjóðaglæpadómstólsins fyrir fyrrum Júgóslavíu frá árinu 2016. Réttarhöldin yfir Seselj höfðu þá staðið yfir í átta ár, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Dómararnir í máli Seselj töldu hann hafa gerst sekan um að koma af stað ofsóknum, brottvísunum og öðrum ómannúðlegum aðgerðum. Þeir töldu jafnframt að ræða sem Seselj flutti í maí 1992 hafi verið kveikjan að voðaverkum gegn fólki af króatískum uppruna í Vojvodina-héraði.
Glæpir Seselj hafa ekki reynst Seselj sérstakur fjötur um fót í serbneskum stjórnmálum. Hann var varaforsætisráðherra landsins frá 1998 til 2000. Eftir að hann var sýknaður af stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyninu fyrir tveimur árum var hann kjörinn á þing fyrir Róttæka flokkinn.
Hann hefur einskis iðrast og sagði fjölmiðlum nýlega að hann stæði enn við þann draum sinn að sameina Serba í Serbíu, Bosníu og Króatíu í einu ríki.
Þrátt fyrir dóminn í dag þarf Seselj ekki að fara í fangelsi því hann hafði þegar afplánað ellefu ár í varðhaldi fyrir réttarhöldin.
Stríðsátök á Balkanskaga hófust eftir að Júgóslavía liðaðist í sundur eftir fall Berlínarmúrsins við byrjun 10. áratugs síðustu aldar og stóð fram að aldamótum. Fjöldi voðaverka var framinn í stríðinu sem grundvallaðist á hörðum þjóðerniserjum á milli Serba, Bosníumanna og Króata.
Serbneskur þjóðernissinni dæmdur fyrir stríðsglæpi
Tengdar fréttir
Sýknaður af ákæru um stríðsglæpi á Balkanskaga
Alþjóðlegi sakadómstóllinn í Haag sýknaði í gær Serbann Vojislav Seselj af ákærum um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni í Balkanskagastyrjöldunum á tíunda áratug síðustu aldar.
Seselj dæmdur fyrir óvirðingu
Vojislav Seselj, leiðtogi stærsta stjórnmálaflokks Serbíu, var í gær dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi af stríðsglæpadómstól í Haag fyrir að hafa sýnt réttinum óvirðingu.