Í yfirlýsingu, sem Sindri sendi Fréttablaðinu í morgun, segir að hann hafi verið neyddur til að undirrita pappír sem stóð á að hann væri frjáls ferða sinna en hafi um leið verið gert ljóst að ef hann færi myndi hann gista fangaklefa þangað til framlenging á gæsluvarðhaldi væri samþykkt.

„Ákveðin nauð“
Spurður að því hvort Sindri hafi verið neyddur til að dvelja um nóttina á Sogni segir Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra, um að ræða „ákveðna nauð“ þar sem Sindra hafi verið gefnir afarkostir.Sjá einnig: Yfirlýsing frá Sindra: „Ég kem fljótlega“
Sindri heldur því einnig fram í yfirlýsingu að um sé að ræða mannréttindabrot og hyggst kæra málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Aðspurður hvort hann sé sammála Sindra að um mannréttindabrot sé að ræða segist Þorgils telja að gengið hafi verið of langt í gæsluvarðhaldskröfunni miðað við eðli málsins.
„Þetta er ofboðslega íþyngjandi úrræði,“ segir Þorgils.
Hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu
Þá segist Þorgils ekki geta tjáð sig um þá fullyrðingu Sindra að honum hafi verið haldið í gæsluvarðhaldi án sönnunargagna. Sindri var í varðhaldi vegna gruns um aðild að Bitcoin-málinu svokallaða þar sem 600 tölvum að verðmæti 200 milljónum króna var stolið. Þorgils ítrekar að Sindri hafi ávallt haldið fram sakleysi sínu í málinu.„Mér heyrist á þessu að hann sé að lýsa því yfir enn og aftur.“
Aðspurður segir Þorgils hafa rætt við Sindra um ástæður að baki flóttanum en getur ekki tjáð sig um það sem þeim hefur farið á milli í þeim efnum. Sindri hafi auk þess ekki látið verjanda sinn vita af yfirlýsingunni sem hann sendi Fréttblaðinu en Þorgils segir þá jafnframt ekki hafa ræðst við í dag. Þá veit Þorgils ekki hvar Sindri er niðurkominn en hefur haft milligöngu um samskipti Sindra við lögreglu sem verjandi hans.