Skoðun

Úrræði fyrir börn í fíknivanda

Ásmundur Einar Daðason skrifar
Undirritaður hefur lagt mikla áherslu á málefni barna og í undirbúningi er vinna sem miðar að því að gera breytingar á velferðarkerfinu til að styrkja stöðu barna auk þess að endurskoða barnaverndarlögin. Eitt þeirra atriða sem þarf að skoða í þessari vinnu er umgjörðin sem við höfum þegar kemur að börnum í fíknivanda.

Ég hef átt fjölda funda með aðilum sem þessu tengjast og þar má t.d. nefna Barnaverndarstofu, barnaverndarnefndir, Olnbogabörn (samtök aðstandenda barna með fíknivanda) auk fjölda einstaklinga. Þetta samtal hefur verið mikilvægt enda verða öll sjónarmið að heyrast þegar þessi mál eru annars vegar. Eftir þetta samtal er ljóst að þessi mál verða að vinnast hraðar heldur en áætlað er varðandi endurskoðun barnaverndarlaga.

Nýtt úrræði á lokametrum

Það hefur verið í vinnslu að setja á fót nýtt tilraunaverkefni Barnaverndarstofu fyrir eftirmeðferð barna sem hafa áður verið vistuð á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu og eftir atvikum einnig á sjúkrastofnunum vegna alvarlegs fíknivanda og eiga erfitt með að yfirfæra meðferðarárangur á heimaslóðir eða fósturheimili. Þessi börn þurfa mun hægari aðlögun út í samfélagið en almennt tíðkast eftir dvöl á meðferðarheimili og þörfum þeirra verður ekki sinnt með endurteknum vistunum á meðferðarheimilum.

Í góðu samstarfi ofangreindra aðila er vinnsla þessa á lokastigum og var verkefnið kynnt í ríkisstjórn í síðustu viku. Samhliða þessu verkefni verður farið í vinnu við að kortleggja og skoða þau meðferðarúrræði sem í boði eru og meta hvort og þá hvaða breytingar þurfi að gera. Ætlunin er að tillögur þeirrar vinnu liggi fyrir innan tveggja mánaða. Þar verði m.a. skoðað hvort ástæða sé til að aldursskipta og kynjaskipta meðferðarúrræðum meira en nú er gert.

Það er ekki einungis samfélagslega mikilvægt að við bregðumst við þegar börn eiga í vanda, það er einnig þjóðhagslega mikilvægt. Börn eru það dýrmætasta sem samfélagið á og er fjárfesting í þeim besta fjárfestingin.

Höfundur er félagsmálaráðherra




Skoðun

Sjá meira


×