Pelé varð þrívegis heimsmeistari á glæstum ferli en hann mætti með látum til leiks á HM í Svíþjóð árið 1958. Vicente Feola, þáverandi þjálfari liðsins, ákvað að veðja á þennan 17 ára gamla strák sem hafði þreytt frumraun sína með landsliðinu ári áður.
Sextán þjóðir frá þremur álfum tóku þátt á HM í Svíþjóð sem var ansi vel heppnað mót. Þarna var ekki styrkleikaraðað heldur var vestur-evrópskur pottur, austur-evrópskur, breskur og Ameríkupottur.
Brassarnir drógust í nokkuð strembinn riðill með Sovétmönnum, Englandi og Austurríki en tvö efstu lið hvers riðils komust áfram.

Byrjaði á bekknum
Pelé byrjaði á varamannabekknum fyrstu tvo leikina. Brassarnir áttu ekki í miklum vandræðum með að rúlla yfir Austurríki, 3-0, í fyrsta leik en gerðu svo markalaust jafntefli við Englendinga í öðrum leik.Pelé kom inn í byrjunarliðið fyrir þriðja leikinn sem Brassarnir unnu, 3-0, en Vavá skoraði bæði mörkin og brasilíska liðið komið í átta liða úrslitin nokkuð auðveldlega. Frammistaða Pelé var mögnuð og var ekki annað hægt en að setja hann í byrjunarliðið fyrir átta liða úrslitin.
Drengurinn ungi, sem var ekki nema 17 ára gamall, þakkaði traustið og skoraði sigurmarkið í 1-0 sigri á Wales í átta liða úrslitum. Brassarnir nálguðust nú þarna annan heimsmeistaratitilinn en frábært lið Frakka með Just Fontaine í fararbroddi stóð í vegi fyrir þeim í undanúrslitunum.
Frakkarnir höfðu pakkað saman Norður-Írlandi í átta liða úrslitum, 4-0, og voru líklegir til afreka á móti. Þeir voru með eitt besta liðið og þurfti brasilíska liðið nú á stórleik að halda.

Metaregn
Til að gera langa sögu stutta fóru Brassarnir á kostum á móti Frakklandi og á móti Svíþjóð í úrslitaleiknum. Pelé skoraði þrennu í 5-2 sigri á Frakklandi í undanúrslitum og vissi heimsbyggðin endanlega að þarna var einstakur leikmaður á ferð.Pelé skoraði svo tvö mörk í 5-2 sigri á Svíþjóð í úrslitaleiknum. Heimamenn rassskelltir í Stokkhólmi og Pelé búinn að skora sex mörk í þremur leikjum í útsláttarkeppninni. Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.
Pelé setti fullt af metum í Svíþjóð sem standa enn þann dag í dag. Hann varð yngsti maðurinn til að skora í lokakeppni 17 ára, 7 mánaða og 27 daga gamall og einnig yngsti leikmaðurinn til að spila og skora í úrslitaleiknum 17 ára og 249 daga gamall.
Sömuleiðis á Pelé metið yfir þann yngsta sem skorað hefur þrennu 17 ára 8 mánaða og 1 dags gamall. Þá er Pelé á allskonar topplistum yfir flesta sigra á HM og er auðvitað í sögubókum heimsmeistaramótsins og verður þar um aldir alda.
Vísir telur niður fyrir HM í knattspyrnu sem hefst í Rússlandi þann 14. júní. Íþróttafréttamenn Vísis munu fylgja íslenska landsliðinu eftir hvert fótmál ytra.