Skoðun

Fallega Reykjavík fyrir okkur öll

Líf Magneudóttir skrifar
Reykjavík á að rúma okkur öll - fólkið sem býr í borginni og ekki síður fólkið sem vill flytja í borgina - sama hvernig við erum og sama hvaðan við komum. Reykjavík er og á að vera falleg borg þar sem við eigum öll að hafa jöfn tækifæri til lífs og leiks og athafna.

Hvað gerir borg fallega?

Eitt af því sem gerir Reykjavík fallega er nálægðin við náttúruna. Við sem erum Vinstri græn viljum varðveita þau ómetanlegu verðmæti sem umlykja okkur alls staðar með því m.a. að vernda hinar fjölmörgu náttúruperlur í borgarlandinu. Við viljum stofna víðfeman borgargarð sem teygir sig frá heiðum og út á sundin. Við ætlum að opna nýjar ylstrendur og við ætlum að styðja við sjálfsprottna menningarstarfsemi í öllum hverfunum.

Það eru ekki einungis almenningsgarðar, hrein og snyrtileg torg og stræti, list í almannarýminu eða nálægð við náttúruna sem gera borgir fallegar. Það sem glæðir borgir lífi og fegurð er blómlegt og fjölbreytt mannlífið. Borgir sem taka vel á móti fólki og gefa öllum jöfn tækifæri eru fallegar borgir.

Jöfnuður er forsenda fallegs mannlífs

Við vitum að fólki líður best þegar það er frjálst og óheft - bæði undan kröfum samtímans, staðalmyndum kynjanna og hvers kyns ofbeldi en líka þegar það þarf ekki að hafa áhyggjur af hinu daglega amstri og að ná endum saman. Í því sambandi getur Reykjavík beitt sér sem stærsti vinnustaður landsins og gengið fram með góðu fordæmi, stytt vinnuvikuna og bætt kjör fjölmennra kvennastétta sem starfa við umönnun og menntun í skólum borgarinnar. 

Borgin á líka að ganga lengra í því að beita gjaldskrám til þess að jafna aðstöðumun fólks. Skilum fjárhagslegum viðsnúningi borgarinnar til skólanna og forgangsröðum fyrir grunnþjónustu og velferð íbúanna. Það á að vera forgangsmál að bæta kjör barnafjölskyldna og þeirra sem búa við kröpp kjör.

Borgarbúar eru hreyfiafl 

Við vitum líka að fólk þarf að lyfta andanum, bæði í einrúmi og í félagsskap við aðra, sækja söfn og kaffihús, fara í sund og í göngutrúa eða á leikvell eða einfaldlega skjótast til kaupmannsins á horninu. Borgarskipulag sem styður við sjálfbær hverfi, verndar græn svæði og náttúru og fjölbreytta samgöngumáta er forsenda þess að fjölbreytt mannlíf geti blómstrað í borginni.

Og allt þetta má gera í Reykjavík. Reykjavík er fólkið sem í henni býr og fólkið sem hana skapar með tilveru sinni, hugviti, væntumþykju og auðvitað líka hversdagsleikanum. Það er fólkið og mannlífið sem gerir Reykjavík fallega. 

Við Vinstri græn erum ánægð með höfuðborgina okkar og við viljum halda áfram og gera enn betur í Reykjavík. Með ykkur öllum.

Gerum Reykjavík Vinstri græna eftir kosningarnar.

Höfundur er oddviti Vinstri grænna í komandi borgarstjórnarkosningum.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×