Einn sjúklingur á bráðaöldrunarlækningadeild B4 á Landspítalanum í Fossvogi sýktist af nóróveiru í síðustu viku. Að sögn Stefáns Hrafns Hagalín, deildarstjóra samskiptadeildar spítalans, sýndu þrír sjúklingar einkenni sýkingar og tveir starfsmenn.
Stefán, sem kallar þetta smávægilega uppákomu, segir að gripið hafi verið til hefðbundinna aðgerða í kjölfar smitsins. Þær aðgerðir felast í einangrun og þrifum. Stefán tekur einnig fram að ekki hafi orðið frekari dreifing á veirunni.
Að sögn Stefáns veit starfsfólk spítalans ekki til þess að gestir eða aðstandendur hafi smitast af veirunni eftir heimsóknir á deildina. Hann segir í því samhengi að erfitt sé að fylgjast með því vegna þess að hún er bráðsmitandi og víða hægt að ná sér í hana.
Líkt og Stefán segir er nóróveiran bráðsmitandi og berst auðveldlega manna á milli. Á Vísindavefnum segir að hópsýkingar á sjúkrahúsum geti verið alvarlegt vandamál og því mjög mikilvægt að hindra útbreiðslu veirunnar innan sjúkrastofnana. Veiran getur smitast beint manna á milli við snertingu. Uppköst eru bráðsmitandi og eru líkur á að smit geti borist í lofti í kjölfar þeirra.

