Erlent

Heimavarnarráðherrann hætti næstum því eftir skammir Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Nielsen fékk það óþvegið frá Trump á ríkisstjórnarfundi í gær.
Nielsen fékk það óþvegið frá Trump á ríkisstjórnarfundi í gær. Vísir/AFP
Kirstjen Nielsen, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, var komin á fremsta hlunn með að segja af sér eftir að Donald Trump forseti skammaði hana fyrir framan alla ríkisstjórnina í gær. Trump er sagður hafa látið skömmum rigna yfir alla stjórnina vegna þess að honum fannst hún hafa brugðist í að tryggja landamæri Bandaríkjanna.

Heimildarmenn New York Times segja að Nielsen, sem er náinn samstarfsmaður Johns Kelly starfsmannastjóra Hvíta hússins, hafi skrifað afsagnarbréf en ekki sent það eftir ríkisstjórnarfundinn í gær. Nielsen hefur landamæravörslu og innflytjendamál á sinni könnu.

Bræði forsetans vegna innflytjendamála er sögð hafa farið vaxandi á undanförnum vikum. Hann hafði tekið heiður af því að innflytjendum sem koma ólöglega til Bandaríkjanna fækkaði í fyrra. Þeim hefur hins vegar fjölgað á þessu ári.

Vill skilja að fjölskyldur sem koma yfir landamærin

Á fundinum í gær er Trump sagður hafa öskrað að suðurlandamærin væru hriplek og að ríkisstjórnin yrði að gera meira til að koma í veg fyrir ólöglegar ferðir fólks yfir þau. Nielsen er sögð hafa talið gagnrýni Trump beinast fyrst og fremst að sér. Hún hafi sagt samstarfsmönnum að hún myndi segja af sér af forsetinn teldi hana ekki standa sig í starfi.

Samskipti Trump og Nielsen eru sögð hafa verið stirð undanfarnar vikur. Trump hafi ítrekað lagt að henni að ganga harðar fram til að stöðva för innflytjenda yfir landamærin. Nielsen tók við embættinu í desember af Kelly eftir að Trump gerði hann að starfsmannastjóra sínum.

Forsetinn hafi litið svo á Nielsen og fleiri embættismenn í ráðuneytinu hafi ekki viljað framfylgja skipun hans um að stía í sundur fjölskyldum sem koma ólöglega yfir landamærin. Hann og aðstoðarmenn hans hafa markað þá stefnu til að fæla fjölskyldur frá því að reyna að komast til Bandaríkjanna.

Dómsmálaráðuneytið tilkynnti á mánudag að landamæraverðir myndu nú alltaf ákæra fólk sem fer ólöglega yfir landamærin. Sú stefnubreyting eru sögð gera sundrun fjölskyldna líklegri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×