Innlent

Elliði tók vel til í skrifborðinu fyrir helgina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elliði Vignisson segir það vera hagsmuni Vestmannaeyinga sem skipta máli.
Elliði Vignisson segir það vera hagsmuni Vestmannaeyinga sem skipta máli. Vísir
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, var að vonum ekkert sérstaklega sáttur en þó brattur þegar lokatölur í Eyjum lágu fyrir. Niðurstaðan er sú að Sjálfstæðisflokkurinn, sem haft hefur meirihluta á Eyjunni fögru í lengri tíma, tapar manni og þar með meirihlutanum.

„Þetta er ótrúlegt. Þær eru glettnar örlagadísirnar,“ segir Elliði í samtali við Vísi. Elliði skipaði fimmta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins. Fyrir Heimaey, klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, náði þremur fulltrúum eins og Sjálfstæðisflokkurinn þótt fylgið væri töluvert minna.

Aðeins munaði örfáum atkvæðum að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fjórða manninn á kostnað Fyrir Heimaey.

„Tólf af fjórtán frambjóðendum H-listans voru flokksbundnir Sjálfstæðismenn. Staðan er talsvert ný, önnur staðan en ég hef nokkurn tímann kynnst.“

Aðspurður um þær viðræður sem fari í hönd, hvort einhverjar líkur séu á að hann verði bæjarstjóri í nýjum meirihluta, er svarið skýrt.

„Ég tók vel til í skrifborðinu fyrir helgina,“ segir Elliði. Munað hafi líka að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki notið stuðnings Páls Magnússonar, oddvita flokksins á þingi.

„Við vissum að það yrði á brattann að sækja.“

Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur í Vestmannaeyjum í síðustu sveitastjórnarkosningum undir stjórn Elliða, hlaut rúmlega 73 prósent atkvæða og fimm fulltrúa í bæjarstjórn á móti tveimur fulltrúum Eyjalistans.

Sú ákvörðun Sjálfstæðismanna að stilla upp lista en fara ekki í prófkjör í flokknum fyrir kosningar olli miklum titringi í flokknum og endaði með klofningsframboði H-listans, fyrir Heimaey.

Svo mjótt var á munum að telja þurfti atkvæði aftur í Eyjum. Elliði telur að fjögur atkvæði utankjörfundar, sem Sjálfstæðisflokkurinn sótti í Valhöll í dag og sendi til Eyja, hafi skipt máli.

„Þau bárust tuttugu sekúndum of seint,“ segir Elliði. Kjörstjórn í Eyjum hafi úrskurðað að þau hafi borist of seint.

Uppfært klukkan 09:09

Í fyrri útgáfu stóð að Elliði ætlaði að tæma skrifborðið fyrir næstu helgi. Hið rétt er að hann sagðist hafa verið búinn að taka vel til í því fyrir helgina. Beðist er velvirðingar á þessu.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×