Endurhæfing Neymar hefur gengið betur en óskast gat samkvæmt læknateymi brasilíska landsliðsins. Neymar er í lokahóp Brasilíu fyrir HM í Rússlandi þrátt fyrir að hafa ekki spilað síðan í febrúar.
Neymar fótbrotnaði í leik með Paris Saint-Germain í febrúar og fór hann í aðgerð í byrjun mars. Hann æfði með brasilíska landsliðinu í gær í fyrsta skipti eftir meiðslin.
„Maður veit aldrei hvað topp íþróttamaður eins og hann getur gert en endurhæfingin hefur verið yfir okkar væntingum,“ sagði einn þjálfara landsliðsins, Fabio Mahseredjian.
„Það er hugsað mjög vel um Neymar. Hann æfir með liðinu og það er vel fylgst með honum, hann fer í skoðun daglega. Það verður mikilvægt að skoða hvar hann er þegar við æfum 11 á móti 11.“
Brasilía hefur leik á HM á þjóðhátíðardag okkar Íslendinga, 17. júní, í Rostov gegn Sviss.
