Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu fær væntanlega mjög krefjandi verkefni í Laugardalnum í næstu viku.
Ísland mætir Nígeríu á HM í Rússlandi og liður í undirbúningi liðsins fyrir þann leik er að fá tækifæri til að spila við afrískt landslið.
Ganabúar eru á leiðinni til Íslands í næstu viku þar sem liðið mun spila vináttulandsleik á Laugardalsvellinum. Leikurinn fer fram 7. júní næstkomandi.
Gana er ekki með á HM í Rússlandi í sumar en knattspyrnulandslið Gana ætlar að reynast HM-þjóðum erfitt viðureignar.
Áður en kom að Íslandsferðinni þá fór Gana til Japans þar sem liðið mætti HM-liði Japana í vináttulandsleik í dag en leikurinn fór fram á Nissan leikvanginum í Yokohama sem hýsti meðal annars úrslitaleik HM 2002 á sínum tíma.
Gana vann leikinn 2-0 með mörkum frá þeim Thomas Partey, leikmanni Atlético Madrid á Spáni og Emmanuel Boateng, leikmanni Levante á Spáni. Yfir 64 þúsund manns mættu á leikinn.
Partey skoraði strax á 9. mínútu leiksins en mark Boateng kom úr vítaspyrnu á 51. mínútu leiksins.
Þetta var fimmta landsliðsmarkið hjá Thomas Partey í fimmtán landsleikjum en fyrsta landsliðsmarkið hjá hinum 22 ára gamla Emmanuel Boateng sem var að spila sinn fyrsta landsleik.
Íslenska landsliðið mun mæta Noregi á laugardaginn og næsti leikur liðsins er því ekki á móti Gana. Ganaleikurinn verður aftur á móti síðasti undirbúningsleikur íslensku strákanna fyrir úrslitakeppni HM þar sem liðið mætir Argentínu í fyrsta leik sínum.
