Skoðun

Hin norræna plastáætlun

Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar
Umhverfismál eru einn af þeim málaflokkum sem Norðurlandaráð leggur mikla áherslu á. Þar eigum við ríkra sameiginlegra hagsmuna að gæta. Á fundi sínum 2. maí 2017 samþykktu umhverfisráðherrar Norðurlanda norræna áætlun um að draga úr umhverfisáhrifum plasts. Framtíðarsýn áætlunarinnar er að framvegis beri að framleiða, nýta og endurvinna plast í hringrásarkerfi sem skaði hvorki heilsu manna né umhverfið. Áætlunin, sem er stefnumarkandi, byggist á fyrri samnorrænum aðgerðum í plastmálum og er sett fram til að auka þekkingu á málefninu, leggja drög að aðgerðum og stuðla að samlegðaráhrifum, auknu samstarfi og vitundarvakningu á Norðurlöndum.

Aðgerðir

Undir „plastáætlunina“ heyra sex stefnumótandi áherslusvið fyrir norrænt samstarf um sjálfbæra plastnotkun sem eru:

a. Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn myndun plastúrgangs og stuðningur við hönnun sem stuðlar að endurnýtingu, lengri líftíma og endurnotkun.

b. Árangursrík kerfi fyrir meðhöndlun úrgangs og aukin endurvinnsla plastúrgangs.

c. Samstarf um að stöðva plastmengun í hafinu og finna hagkvæmar lausnir til hreinsunar.

d. Að efla þekkingu á örplasti og greina aðgerðir til að draga úr losun þess út í umhverfið.

e. Að efla þekkingu á umhverfisáhrifum lífplasts, þ.e. plasts unnu úr lífmassa, og lífbrjótanlegs plasts í samanburði við hefðbundið plast.

f. Að efla þekkingu á efnum sem valda vandræðum í tengslum við endurvinnslu plasts.

Norræna embættismannanefndin um umhverfis- og loftslagsmál ber meginábyrgð á áætluninni og hafa vinnuhópar á vegum nefndarinnar umsjón með framkvæmd áætlunarinnar. Utanaðkomandi samstarfsaðilar, svo sem stjórnvöld, rannsóknarstofnanir, atvinnulífið og félagasamtök, geta einnig komið að framkvæmd áætlunarinnar.

Auk þess að marka stefnu í aðgerðum sem draga úr plastmengun á Norðurlöndum er áætlunin einnig framlag Norðurlanda til framkvæmdar á alþjóðasamningum, þar á meðal heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna nr. 12 og 14 og átaki Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna gegn úrgangi í hafi sem ber yfirskriftina CleanSeas og er ætlað að hvetja stjórnvöld, fyrirtæki og almenning til aðgerða sem stuðla að hreinni höfum. Þá sýnir áætlunin einnig skuldbindingu Norðurlandanna til að innleiða ályktanir umhverfisþings Sameinuðu þjóðanna um úrgang og örplast í hafi.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs




Skoðun

Sjá meira


×