„Úrslitin eru krafa um breytingar og það fer auðvitað svolítið eftir því hversu opnir þeir eru fyrir breytingum. Menn verða að lesa rétt úr niðurstöðum kosninga,“ segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og félagsmaður í Viðreisn, spurður að því hvort hann sjái fyrir sér að Viðreisn semji um meirihlutasamstarf við Samfylkinguna, Pírata og VG. Þrír síðastnefndu flokkarnir mynduðu meirihluta með Bjartri framtíð á síðasta kjörtímabili.
Viðreisn fékk 8,16 prósent atkvæða í kosningunum. Þorsteinn segir að með því að ná kjöri sem þriðji stærsti flokkurinn í borgarstjórn sé flokkurinn að styrkja stöðu sína verulega. Samfylkingin tapaði hins vegar um sex prósentustigum, hlaut um 26 prósent atkvæða og er næststærsti flokkurinn í borgarstjórn. VG tapaði 3,75 prósentum, fékk rétt tæp 4,6 prósenta fylgi. Píratar bættu hins vegar við sig einu prósenti og eru með 7,73 prósent.
Sjá einnig: Sósíalistar útiloka meirihlutasamstarf
Það er álit Þorsteins að í ljósi þessara úrslita eigi Viðreisn fullt erindi í meirihlutasamstarf. „Já, til þess bjóða menn sig fram og þegar menn fá svona góða kosningu þá eiga þeir fullt erindi í það,“ segir Þorsteinn.
„Svo verður það bara að koma í ljós hvernig samningar milli flokka verða.“
Nýkjörnir borgarfulltrúar halda flestir spilunum mjög þétt að sér þessa dagana og láta fátt uppi um áform sín í meirihlutaviðræðum. Vitað er að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, hefur bæði átt samtöl við oddvita flokkanna sem voru í meirihluta og við Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna. Þá liggur jafnframt fyrir að í gær vörðu frambjóðendur drjúgum tíma í að ræða við bakland sitt í flokkunum.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, segir að nærtækast væri að Viðreisn myndaði meirihluta með Samfylkingunni, Pírötum og VG. „Ég held að þetta sé það raunhæfasta í stöðunni. Það er bara takmarkað hvaða meirihlutar eru mögulegir,“ sagði Dóra Björt í samtali við fréttavefinn Vísi í gær.
Viðreisn er í ákveðinni oddastöðu. Dóra Björt segir að Viðreisn sé komin í þá stöðu vegna þess að Píratar hafi verið opnir og heiðarlegir. Þeir hafi ítrekað þá skoðun sína að ekki væri samstarfsflötur með Sjálfstæðisflokki. „Það gefur augaleið að Píratar væru í sömu oddastöðu ef þeir hefðu haldið því opnu að vinna til hægri.“
Búast má við því að fyrir helgi verði komin mynd á það hvaða flokkar hefja meirihlutaviðræður.
Manchester City
Chelsea