Konunni var rænt í heimalandinu árið 1990. Skæruliðarnir hótuðu að drepa hana ef hún eldaði ekki og þrifi fyrir þá. Þeir neyddu hana einnig til að horfa á þegar þeir létu eiginmann hennar, sem var liðþjálfi í stjórnarhernum, grafa sína eigin gröf áður en hann var drepinn, að því er segir í skjölum málsins.
Þessi „störf“ konunnar fyrir skæruliðana taldi innflytjendadómstóllinn jafngilda því að hefði veitt samtökum sem bandarísks stjórnvöld skilgreina sem hryðjuverkahóp „efnislega aðstoð“. Þar með ætti hún ekki rétt á hæli í Bandaríkjunum eða að láta stöðva brottvísun sína.
Engin undanþága vegna nauðungarvinnu
Konan komst ólöglega til Bandaríkjanna árið 1991 en fékk síðar tímabundið landvistarleyfi vegna náttúruhamfara í heimalandinu. Hún yfirgaf Bandaríkin um tíma en kom þangað aftur árið 2004. Yfirvöld reyndu að vísa henni úr landi og hefur mál hennar þvælst um í dómskerfinu í áraraðir, að sögn CNN-fréttastöðvarinnar.Dómurinn klofnaði í máli konunnar. Tveir dómendur töldu að senda ætti hana úr landi en einn skilaði séráliti. Annar dómendanna sem mynduðu meirihlutann sagði að engin undanþága væri í lögunum um nauðgunarvinnu fyrir hryðjuverkasamtök.
Dómandinn sem skilaði séráliti gagnrýndi félaga sína harðlega og sagði störf konunnar fyrir skæruliðana hafi verið svo smáleg að þau féllu ekki undir skilgreiningu á „efnislegri aðstoð“.
Konan getur enn áfrýjað niðurstöðunni til alríkisdómstóls eða reynt að sannfæra Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, um að grípa inn í mál hennar.
Blóðugt borgarastríð geisaði í El Salvador frá 1979 til 1992. Þar börðust nokkrar sveitir vinstrisinnaðra skæruliða gegn herforingjastjórn sem naut stuðnings Bandaríkjastjórnar.