Fótbolti

Flugufaraldurinn hafði truflandi áhrif á leikmenn Englands

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Harry Kane reyndist hetja Englendinga
Harry Kane reyndist hetja Englendinga Vísir/Getty
Leikmenn enska landsliðsins kvörtuðu sáran yfir moskítóflugum eftir leik liðsins gegn Túnis í HM í Rússlandi í gær en mikið er um moskítóflugur og mývarg í borginni Volgograd, bæði vegna hitans og að borgin stendur við Volgu.

Harry Kane reyndist hetja enska liðsins þegar hann gerði sigurmarkið í uppbótartíma. Þrátt fyrir að ensku leikmennirnir hafi gert ráðstafanir til að verjast flugunum trufluðu þær þá verulega að sögn Kane.

„Þetta var miklu verra en við bjuggumst við. Við vorum búnir að nota sprey til að reyna að verjast þeim; við gerðum það fyrir leik og í hálfleik. Ég fékk samt flugur í augun, upp í nefið og jafnvel upp í munninn á mér,“ sagði hetja Englendinga í leikslok.

Flugurnar virtust þó ekki trufla andstæðinga Englendinga jafn mikið.

„Ég fann ekkert fyrir þessum flugum því ég var svo einbeittur að liðinu mínu og leiknum,“ var haft eftir Nabil Maaloul, þjálfara Túnis í leikslok.

Borgaryfirvöld í Volgograd hafa reynt að grípa til ýmissa ráðstafana til að hafa hemil á flugnafaraldrinum en það virðist ganga erfiðlega. Eitri var til að mynda sprautað úr þyrlum yfir keppnisvöllinn.

Næsti leikur Íslands fer einmitt fram í Volgograd á föstudag þar sem leikið verður gegn Nígeríu.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×