Lögreglan hafði afskipti af fjölda einstaklinga í nótt sem sagðir eru hafa verið undir áhrifum vímuefna. Til að mynda var ökumaður bíls sem velti bílnum sínum í Ártúnsbrekku á ellefta tímanum sagður hafa verið ofurölvi. Vísir sagði frá málinu í gærkvöldi en mikill viðbúnaður var á slysstað og var veginum í átt að Grafarvogi lokað um tíma.
Bifreið hans er sögð vera illa farin eftir veltuna og að ótrúlegt megi teljast hversu lítið ökumaðurinn hafði meiðst. Eftir heimsókn á slysadeild var maðurinn engu að síður fluttur í fangaklefa þar sem hann hefur mátt dúsa í nótt.
Lögreglan stöðvaði einnig ökumann í Breiðholti á fimmta tímanum í morgun vegna þess að bifreið hans á var nagladekkjum. Þegar lögreglumenn gáfu sig á tal við ökumanninn þótti þeim ljóst að hann væri líklega undir áhrifum einhvers konar fíkniefna. Því var hann fluttur á lögreglustöð þar sem hann var látinn gangast undir sýnatöku. Að henni lokinni fékk ökumaðurinn að halda til síns heima.
Það var svo í Mosfellsbæ sem lögreglan hafði afskipti af ölvuðu pari á hringtorgi. Í samtali við lögreglumenn viðurkenndu þau bæði ölvunarakstur og voru því flutt á lögreglustöð til sýnatöku. Ólíkt nagladekkjaökumanninum voru þau vistuð í fangageymslu að sýnatöku lokinni. Ekki fylgir sögunni hvað þau voru að gera á hringtorginu eða hvar bifreið þeirra var niðurkomin.
