Fótbolti

Rivaldo: Verðið að hætta að gráta ef þið ætlið að vinna HM

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Niðurbrotnir leikmenn Brasilíu eftir undanúrslitaleikinn fyrir fjórum árum
Niðurbrotnir leikmenn Brasilíu eftir undanúrslitaleikinn fyrir fjórum árum Vísir/getty
Brasilíska goðsögnin Rivaldo vill ekki sjá leikmenn brasilíska liðsins fella tár yfir þjóðsöngnum fyrir leiki á heimsmeistaramótinu.

Hann segir Brasilíu ekki eiga neina von á því að sigra mótið ef þeir láta tilfinningarnar hlaupa með sig. Nokkrir leikmenn Brasilíu, þar á meðal Thiago Silva og Neymar, felldu tár yfir þjóðsöngnum fyrir undanúrslitaleikinn fyrir fjórum árum þar sem Brassarnir voru niðurlægðir í 7-1 tapi gegn Þjóðverjum.

„Þú verður að hafa sérstakan persónuleika til þess að sigra heimsmeistaramótið,“ sagði Rivaldo við ESPN.

„Þetta er ekki eins og að spila fyrir félagsliðið þitt, allt er erfiðara. Þetta eru allt frábærir leikmenn en þeir mega ekki vera hræddir um hvað stuðningsmennirnir segja. Þeir þurfa að gleyma því að 200 milljón manns séu að horfa heima í Brasilíu.“

„Þú þarft að vera rólegur og spila af gleði, ekki gráta yfir þjóðsöngnum. Hleypið tilfinningunum inn í ykkur, látið þær knúa ykkur áfram, en engin tár. Ég er á móti því. Tár eru veikleikamerki og hjálpa ekki. Þú þarft að spila með löngun í hjarta og blóð í augum,“ sagði Rivaldo.

Brasilía hefur leik á HM í Rússlandi gegn Sviss. Leikurinn hefst núna klukkan 18:00 og er í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×