Fótbolti

Þrír íslenskir í liði gærdagsins á HM

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Strákarnir fagna marki Alfreðs í gær
Strákarnir fagna marki Alfreðs í gær vísir/vilhelm
Ísland gerði 1-1 jafntefli við Argentínu í fyrsta leik þjóðanna á HM í fótbolta í gær. Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslendinga og Hannes Þór Halldórsson varði vítaspyrnu frá Lionel Messi.

Jafnteflið hefur vakið mikla athygli í umheiminum, enda frábær úrslit Íslands á fyrsta leiknum á stærsta sviði fótboltans þar sem íslensku víkingarnir höfðu full tök á einum besta fótboltamanni sögunnar.

Blaðamaðurinn Sam Tighe gefur út lið dagsins eftir hvern keppnisdag á HM í Rússlandi og voru hvorki meira né minna en þrír Íslendingar í liði hans fyrir gærdaginn. Enginn Argentínumaður komst í liðið.

Hannes Þór er að sjálfsögðu í markinu. Það getur ekki hver sem er varið vítaspyrnu frá Messi og þegar þú gerir það fær það athygli.

Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er í stöðu varnarsinnaðs miðjumanns eftir frábæra frammistöðu og markaskorari Íslands, Alfreð Finnbogason, er fremstur.



 


Tengdar fréttir

Einkunnir Íslands: Hannes fær 10 og var maður leiksins

Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska landsliðsins, var maður leiksins að mati Vísis þegar Ísland gerði 1-1 jafntefli á móti Argentínu í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×