Strákarnir okkar lögðu nefnilega ekki árar í bát þegar að þeir sátu svekktir inn í búningsklefanum á Maksimir-leikvanginum í nóvember fyrir fimm árum. Þvert á móti. Þetta var upphaf ævintýralegrar velgengni sem heimurinn hefur tekið eftir.
„Fokk it, við förum á EM,“ var sagt inn í klefanum. Þau orð núllstilltu allt í höfðum strákanna og ríflega tveimur árum seinna gengu þeir út á völlinn í Saint-Étienne við hlið Cristiano Ronaldo og félagar í Portúgal og héldu áfram að heilla heiminn með flottu jafntefli.

Klukkan 16.00 að staðartíma í Moskvu munu íslensku strákarnir okkar standa við hlið Lionel Messi og félaga og ganga út á Spartak-völlinn fyrir framan 45.000 manns sem verða í stúkunni og hundruði milljóna sem munu horfa á leikinn í sjónvarpinu. Kastljós heimsins mun beinast að þeim.
Þegar pólskur dómari leiksins blæs í flautuna getum við ekkert meira gert fyrir þá. Þeir verða þá búnir að fá allar bestu kveðjur sem hægt er að fá frá eiginkonum, kærustum, mömmum, pöbbum, bræðrum og vinum. Þeir fara út á völlinn með eins mikinn meðvind og eitt fótboltalið getur fengið.

Það skemmtilega við fótboltavelli er að þessi 105x68 grasflötur getur boðið upp á eitthvað óvænt. Ekki kraftaverk. Við köllum góð úrslit íslenska liðsins ekki kraftaverk lengur. Góð úrslit í dag gætu verið óvænt, en samt ekki.
Stórlaxar hafa gengið svekktir af velli eftir að reyna að ná einhverju fram gegn strákunum okkar. Þeir hafa orðið undir í baráttunni. Viljinn var kannski þeirra eina vandamál.
Viljinn er aldrei vandamál hjá strákunum okkar.
Gangi ykkur vel, strákar.
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.