Fótbolti

Líkti blaðamannafundinum við jarðaför og yfirgaf svo salinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Ramos á blaðamannafundinum.
Sergio Ramos á blaðamannafundinum. Vísir/Getty
Mikið hefur gengið á í herbúðum spænska fótboltalandsliðsins síðustu daga en liðið spilar í kvöld sinn fyrsta leik á HM í Rússlandi.

Spánverjar mæta þá Evrópumeisturum Portúgala sem verður jafnfram fyrsti leikur spænska landsliðsins undir stjórn Fernando Hierro.

Fernando Hierro var ráðinn þjálfari á þriðjudaginn eftir að spænska knattspyrnusambandsins rak landsliðsþjálfarann Julen Lopetegui. Það fór mjög illa í formann spænska sambandsins að Lopetegui samdi við Real Madrid rétt fyrir HM.

Sergio Ramos er fyrirliði spænska landsliðsins og mætti með nýja þjálfaranum Fernando Hierro á blaðamannafund í gær.

Sergio Ramos var búinn að ræða við blaðamenn í hálftíma þar sem hann var spurður ítrekað út í þetta þjálfaramál. Miðvörðurinn sagði þá hingað og ekki lengra.

„Þetta er eins og í jarðaför,“ sagði Sergio Ramos og bætti við: „Þetta er HM, ekki gleyma því, sem er frábær viðburður. Við ættum að reyna að njóta þess,“ sagði Sergio Ramos áður en hann stóð upp og yfirgaf salinn.

Hann tók Fernando Hierro með sér en gaf sér samt tíma til að brosa fyrir myndavélarnar. Blaðamannafundurinn var hinsvegar búinn.

Sergio Ramos hafði barist fyrir því að Julen Lopetegui fengi að halda áfram sem þjálfari spænska landsliðsins en tapaði þeirri baráttu. Hann hefur samt einbeitt sér að leiða lið sitt í gegnum þennan ólgusjó.

Sergio Ramos og Fernando Hierro.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×