Fótbolti

Emil: Ég er ekki mikið í Fortnite eða Playstation

Tómas Þór Þórðarson í Moskvu skrifar
Emil Hallfreðsson hlustar mikið á tónlist.
Emil Hallfreðsson hlustar mikið á tónlist. vísir/vilhelm
Emil Hallfreðsson, miðjumaður íslenska landsliðsins í fótbolta, nýtur lífsins í Gelendzikh með strákunum okkar þar sem hitastigið hefur verið korter í 30 gráður alla daga frá því að okkar menn mættu að Svarta hafinu.

Emil er vanur hitanum frá Ítalíu þar sem að hann hefur spilað undanfarin ár, bæði með Verona og Udinese. Hitastigið verður aðeins lægra í Moskvu en heitt verður á leikdegi gegn Argentínu og því er þetta fínn undirbúningur fyrir liðð.

„Þetta er topp veður. Það er ekki hægt að kvarta yfir þessu, er það? Þetta er bara eins og venjulegur dagur á Ítalíu að sumri til. Ég er ótrúlega vanur sól og sumri. Þetta er alveg frábært og gott að undirbúa sig í svona hita fyrir leikinn í Moskvu þar sem að þetta verður eitthvað svipað,“ segir Emil og sleikir sólina.

Strákarnir hafa allt til alls á liðshótelinu til að gera veruna sem besta en þar er hægt að dundar sér í allskonar afþreyingu nú eða bara liggja í sólbaði eða kíkja í laugina.

„Þetta er búið að vera alveg frábært. Það fer ótrúlega vel um okkur hérna og ekki yfir neinu að kvarta. KSÍ og allir eiga mikið hrós skilið fyrir að skapa hérna topp aðstæður,“ segir Emil.

Tölvuleikurinn Fortnite er að taka yfir heiminn og eru nokkrir af strákunum okkar að spila hann á hótelinu. Emil er með þeim eldri í landsliðinu og eyðir ekki tíma í tölvuleiki.

„Ég er ekki í Fortnight. Þetta eru bara rólegheit hjá mér. Ég hlusta mikið á tónlist og svo höngum við strákarnir bara mikið og spjöllum. Ég er vanur því að vera á hótelum þannig þetta er ekkert nýtt fyrir mér. Ég er allavega ekki mikið í Playstation. Ég get viðurkennt það,“ segir Emil Hallfreðsson.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir

Íslensku strákarnir lentir í Moskvu

Íslenska landsliðið er lent í Moskvu. Strákarnir lögðu af stað frá Gelendzhik stuttu eftir hádegið að íslenskum tíma og eru nú komnir í rússnesku höfuðborgina þar sem liðið mætir Argentínu á laugardag í fyrsta leik á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×