Fótbolti

Ari Freyr: Vill ljúka tíu ára eyðimerkurgöngu með skoti í Samúel

Kolbeinn Tumi Daðason í Kabardinka skrifar
Ari Freyr í viðtölum á æfingasvæðinu í morgun.
Ari Freyr í viðtölum á æfingasvæðinu í morgun. Vísir/Vilhelm
Ari Freyr Skúlason er einn reynslumesti landsliðsmaður Íslands í Rússlandi með 56 landsleiki fyrir A-landsliðið. Þá hefur hann spilað 25 sinnum fyrir yngri landslið. En aldrei skorað mark.

„Ég held að ég eigi eitt inni,“ segir Ari Freyr. „Yfir 50 landsleikir og ekkert mark. Það er ekki alveg ég.“

Ari Freyr er með baneitraðan vinstri fót og hefur skorað glæsileg mörk fyrir félagslið sín í gegnum tíðina. En landsliðsmarkið lætur bíða eftir sér. 

Birkir Már Sævarsson, kollegi Ara Freys í hægri bakverði, skoraði sitt fyrsta og eina landsliðsmark með þrumuskoti utan teigs gegn Liechstenstein fyrir tveimur árum. Geggjað mark en eitthvað sem maður átti frekar von á frá Ara en Birki.

Hver veit, kannski kemur markið á HM.

„Það væri geggjað að setja einn í Samúel,“ segir Ari Freyr og vísar til samskeytanna, bláhornsins uppi, þar sem stöng og slá mætast.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×