Fótbolti

1 dagur í HM: Þegar danska dýnamítið var að fara vinna HM en lenti svo í spænska gamminum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Preben Elkjær Larsen og Michael Laudrup fagna hér marki á HM í Mexíkó 1986.
Preben Elkjær Larsen og Michael Laudrup fagna hér marki á HM í Mexíkó 1986. Vísir/Getty
Fyrir 32 árum voru Danir í sömu stöðu og íslenska karlalandsliðið á HM í Rússlandi. Fyrsta heimsmeistarakeppni Dana var HM í Mexíkó 1986 og líkt og við Íslendingar þá hafði danska landsliðið slegið í gegn á Evrópumóti í Frakklandi tveimur árum fyrr.

Í þá daga þegar engan Íslending dreymdi einu sinni um að sjá íslenska landsliðið keppa á HM þá voru mjög margir sem héldu með þessu stórskemmtilega landsliði Dana á gullaldarárum þess. Danir voru með léttleikandi lið sem skoraði mörk og skemmti litríkum stuðningsmönnum sínum.  

Heimsmeistarakeppnin í Mexíkó var mikið ævintýri fyrir dönsku þjóðina enda gekk frábærlega framan af móti eða allt þar til að liðið mætti sigurreift í sextán liða úrslitin.



Preben Elkjær Larsen raðaði inn mörkum í byrjun HM.Vísir/Getty
Það er mjög merkilegt hvað margt er sameiginlegt með danska landsliðinu á níunda áratugnum og íslenska liðinu í dag. Líkt og hjá Íslandi þá komst danska liðið á fyrsta stórmótið á EM í Frakklandi eftir að hafa rétt misst af HM tveimur árum fyrr. Danir náðu frábærum árangri á EM 1984 og stuðningsmenn liðsins slógu í gegn. Tveimur árum síðar var komið að fyrsta heimsmeistaramóti dönsku þjóðarinnar.

Danska landsliðið hafði valdið miklum vonbrigðum á sjöunda og áttunda áratugnum þrátt fyrir að eiga margra frambærilega leikmenn. Hver man ekki eftir liðinu sem vann Ísland 14-2 í Parken.

Danska liðið komst reyndar í úrslitakeppni EM 1964 en það var eina stórmót Dana þegar liðið náði loksins að tryggja sig inn á EM í Frakklandi 1984.

Upphafið af viðsnúningnum var eflaust þegar Þjóðverjinn Sepp Piontek var ráðinn þjálfara liðsins í júlí 1979 og kom með miklu meiri aga inn í liðið. Danska kæruleysið var ekki lengur allsráðandi.

Michael LaudrupVísir/Getty
Danska landsliðið var nálægt því að komast á HM 1982 á Spáni þar sem liðið vann meðal annars eftirminnilega 3-1 sigur á verðandi heimsmeisturum Ítala en það vantaði aðeins upp á og dönsku strákarnir sátu eftir í riðlinum.

Danir komust hinsvegar á EM tveimur árum síðar þar sem þeir skildu Englendinga eftir í undankeppninni. Danska liðið fékk viðurnefnið danska dýnamítið eftir frábæra frammistöðu sína á EM 1984 þar sem liðið fór alla leið í undanúrslit þar sem liðið tapaði í vítakeppni á móti Spáni.

Reynslunni ríkari þá mættu dönsku landsliðsmennirnir með bullandi sjálfstraust inn á HM í Mexíkó. Það hafði gengið vel hjá leikmönnunum með félagsliðum sínum á tímabilinu en í liðinu voru meðal annars leikmenn sem höfðu orðið enskir, ítalskir, vestur-þýskir, hollenskir og belgískir meistarar tímabilið 1985 til 1986.

Vísir/Getty
Dönsku áhorfendurnir stálu ekki síður senunni eins og leikmennirnir því „Roligans“ eins og Danir fóru að kalla sig 1985 mættu til leiks með gleði og söngva að vopni sem var ferskur blær um áhorfendastúkur fótboltans sem á þessum árum glímdu oft við ólæti og slagsmál stuðningsmanna.

Danir höfðu verið valdir bestu stuðningsmennirnir á EM 1984 og höfðu unnið hug og hjörtu heimsins með litríkri og skemmtilegri framkomu sinni.

Liðið sjálft var líka frábært sem það sýndi i riðlakeppninni á HM í Mexíkó. Með framherjann Preben Elkjær Larsen og hinn magnaða Michael Laudrup í stuði þá áttu Skotland, Úrúgvæ og Vestur-Þýskaland engin svör.

Vísir/Getty
Danir unnu alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni og markatalan var 9-1 eftir fyrstu þrjá leikina. Preben Elkjær Larsen skoraði þrennu á móti Úrúgvæ og var kominn með fjögur mörk í keppninni. Menn voru jafnvel farnir að sjá heimsmeistaratitil í hillingum þegar kom að leik Dana á móti Spáni í sextán liða úrslitunum.

Leikurinn byrjaði líka vel þegar Jesper Olsen kom Dönum í 1-0 með marki úr vítaspyrnu en skelfileg mistök Olsen færðu Spánverjum jöfnunarmark á silfurfati. Markið skoraði Emilio Butragueno betur þekktur sem gammurinn vegna þess hversu vel hann nýtti sér mistök mótherjanna.

Leikur danska liðsins hrundi síðan í seinni hálfleik. Butragueno skoraði þar þrjú mörk og því fjögur alls og fimmta markið skoraði síðan Andoni Goikoetxea.  

HM-ævintýri Dana endaði því snögglega og þeir voru á heimleið. Á EM tveimur árum seinna töpuðust allir þrír leikirnir og danska liðinu mistókst síðan að komast á HM á Ítalíu 1990. Það hafði sloknað á danska dýnamítinu.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×