Harry Kane mun bera fyrirliðband enska landsliðsins á HM í Rússlandi og hann fór að tala um umræddan Íslandsleik í viðtali við BBC eftir að ensku leikmennirnir lentu í Rússlandi.
„Við erum afslappaðir og höfum staðið okkur mjög vel hingað til í þessari keppni. Við höfum verið að spila góðan fótbolta og ég veit að við munum fá góðan stuðning hér í Rússlandi,“ sagði Harry Kane í viðtalinu.
„Heimsmeistarakeppnin er stærsta keppnin í fótboltanum og hingað dreymir þig að koma sem krakki. Allir vilja komast á stærsta sviðið í fótboltaheiminum,“ sagði Kane. Hann var síðan spurður út í tapið á móti Íslandi á EM 2016.
They've arrived. And they're ready!#bbcworldcuppic.twitter.com/IEnkhfOhel
— BBC Sport (@BBCSport) June 13, 2018
„Við berjumst alltaf fyrir okkar þjóð og gerum allt sem við getum til að komast sem lengt. Vonandi stöndum við okkur betur hér á HM en á því móti,“ sagði Kane.
Harry Kane tókst ekki að skora á móti Íslandi og hann skoraði heldur ekki á öllu Evrópumótinu fyrir tveimur árum. Hann þyrstir því í mörk á stórmóti.
„Maður vill alltaf bæta sig. Þetta er mitt annað stórmót og ég vil bæta þessa tölfræði. Vonandi get ég byrjað strax á því á mánudaginn,“ sagði Kane. Fyrsti leikur enska landsliðsins er á móti Túnis.