Strákarnir hafa notið sín á fyrstu dögunum í Gelendzhik en æfingasvæði í Kabardinka er með flottasta móti og völlurinn alveg frábær.
„Hingað til hafa æfingar verið góðar og aðstæður frábærar þannig þetta er allt í topp málum,“ segir Frederik á frábærri ensku. Hann vill frekar tala ensku í lengri viðtölum en hann verður betri í íslensku með hverjum deginum.

Bara jákvæðir hlutir
Eins og greint var frá í gær fundaði Hannes Þór Halldórsson með íslenska markvarðateyminum því honum fannst ansi þungt yfir mönnum á æfingum. Rúnar Alex talaði einnig um fundinn í fyrr í dag en hvað fannst Frederik?„Hannes kom að máli við okkur og sagði við Gumma, Alex og mig að við þurfum að njóta þess að vera hérna. Þetta er stærsta mót heims og því þurfum við að sýna að við höfum gaman að því að vera hérna. Hann sagði bara jákvæða hluti,“ segir Frederik.
„Við hlökkum allir til fyrsta leiksins. Við æfum vel og reynum að halda gleðinni. Stemningin og orkan hefur verið mikil í herbúðum markvarðanna og vonandi verður það þannig áfram,“ segir hann.
Frederik gerði slæm mistök í vináttuleiknum á móti Noregi á dögunum þegar að hann reyndi að leika á framherja gestanna með þeim afleiðingum að boltinn var hirtur af honum og settur í netið. Nóttin eftir mistökin var erfið.

Svaf lítið
„Augljóslega svaf ég ekki vel því þetta voru stór mistök. Þetta var stórt fyrir mig því ég vildi sýna hversu góður ég er. Maður fær bara 90 mínútur í einu til að sýna sig og ef þú gerir það ekki er það næsti leikur,“ segir Frederik.„Svona er lífið sem markvörður og sérstaklega þegar að þú ert kominn svona langt. Ef þú ræður ekki við þetta áttu ekki að vera markvörður. Það er mikil ábyrgð að vera markvörður og ég elska ábyrgðina. Ef maður ræður ekki við ábyrgðina á maður ekki að standa í marki.“
„Ég er sterkur andlega og get því alveg ráðið við svona. Ég kem aftur sterkari. Ég er ekki einu sinni að hugsa um þetta núna því mistök gerast á stærstu sviðum fótboltans. Það sáum við bara í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Ég er ekki slakur markvörður vegna þess að ég gerði ein slæm mistök. Ég veit að þetta verður ekki minn síðasti landsleikur,“ segir Frederik Schram.
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.