Fótbolti

Ísland aðeins sjö prósentum frá öðru sæti riðilsins í útreikningum Opta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hvernig ætli Gylfa Þór Sigurðssyni lítist á þessa spá.
Hvernig ætli Gylfa Þór Sigurðssyni lítist á þessa spá. Vísir/EPA
Fjölmiðlar og tölfræðiþjónustur keppast nú við að spá fyrir um gang mála í riðlakeppni HM í fótbolta í Rússlandi sem hefst seinna í vikunni og það er alltaf fróðlegt að skoða hvaða trú þessir aðilar hafa á íslensku strákunum.

Ísland rekur sem dæmi lestina í spá íþróttatölfræðiþjónustunnar Opta um lokastöðuna í D-riðli HM í fótbolta í Rússlandi en íslensku strákarnir eru samt ekki langt frá öðru sætinu sem myndi gefa sæti í sextán liða úrslitunum.

Argentínumenn eiga að vinna yfirburðarsigur í D-riðlinum en það eru 75,7 prósent líkur á því að þeir komist áfram í útsláttarkeppnina.

Öll hin þrjú liðin í riðlinum eru með minna en 50 prósent líkur á því að enda í öðru af tveimur efstu sætum riðilsins.

Króatar eru með 45,2 prósent líkur á því að komast áfram, líkur nígeríska landsliðsins eru 40,6 prósent og íslensku strákarnir eru að lokum með 38,5 prósent líkur á sæti í sextán liða úrslitunum.

Þetta þýðir um leið að strákarnir eru innan við sjö prósentum frá öðru sæti riðilsins samkvæmt útreikningum Opta.

Samkvæmt þessu má búast við mjög spennandi keppni í D-riðlinum sem margir fjölmiðlar hafa litið á sem einn þann jafnasta í heimsmeistarakeppninni í ár.

Spá Opta í D-riðli má sjá hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×