Fótbolti

Zidane ekki að eltast við landsliðsþjálfarastarfið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Frakkar lyftu sínum fyrsta og eina titli fyrir 20 árum
Frakkar lyftu sínum fyrsta og eina titli fyrir 20 árum vísir/getty
Franska knattspyrnugoðsögnin Zinedine Zidane hefur verið orðaður við landsliðsþjálfarastöðuna hjá Frakklandi í kjölfar þess að hann hætti óvænt hjá þreföldum Evrópumeisturum Real Madrid á dögunum.

Zidane þvertekur hins vegar fyrir að það hafi verið ástæðan og styður hann heilshugar við bakið á fyrrum liðsfélaga sínum á miðjunni hjá franska landsliðinu; Didier Deschamps.

„Mikilvægast á öllu er að styðja við bakið á franska landsliðinu. Ástæðan fyrir því að ég hætti hjá Real er ekki sú að ég ætli að taka við Frakklandi.“

„Ég er stuðningsmaður Frakklands og ég vil að Frakkland verði Heimsmeistari í annað sinn,“ segir Zidane sem var í lykilhlutverki þegar Frakkland vann HM í fyrsta og eina skiptið; á heimavelli 1998.

Hann kveðst ekki vera búinn að taka ákvörðun um framtíð sína en ljóst er að mörg stórlið, félagslið jafnt sem landslið, renna hýru auga til Zidane.

„Ég veit ekki hvað ég mun taka mér fyrir hendur en mér líður vel og mun njóta þess að fylgjast með HM í rólegheitunum,“ segir Zidane jafnframt.

Frakkland hefur leik á HM í Rússlandi næstkomandi laugardag þegar liðið mætir Ástralíu en Frakkar eru sömuleiðis með Peru og Danmörku í C-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×