Skoðun

Hvað er með þetta veður?

Haukur Örn Birgisson skrifar
Helginni varði ég á fótboltamóti fyrir 7. flokk drengja á Akranesi. Sonur minn var að keppa og var mótið frábær skemmtun í alla staði. Eini ókosturinn við helgina var veðrið en við því gátu Skagamenn svo sem lítið gert. Það rigndi stóran hluta helgarinnar og þegar ekki rigndi, þá leit út fyrir að það væri að fara að rigna. Þetta var mikið rætt hjá okkur foreldrunum á tjaldsvæðinu. Af öllum þeim skemmtilegu samtölum sem ég átti þá snerust líklega 70% um veðrið. Það verður ekki af okkur tekið – Íslendingum finnst einstaklega gaman að tjá sig um veðrið.

Þegar öllu er á botninn hvolft, hugsa ég að við eyðum full miklum tíma í að tala um veðrið. Líklegast hefur þetta alltaf verið svona og ég leiði stundum hugann að því hvað við hefðum getað gert í staðinn. Allur þessi tími sem fór í að tala um veðrið, þegar við gátum verið að gera eitthvað uppbyggilegt! Hugsið ykkur allar Íslendingasögurnar sem ekki voru ritaðar vegna þess að Sæmundur fróði og Snorri Sturluson voru að spjalla um lægðir yfir landinu við hina pabbana í götunni. Öll listaverkin, tónverkin og vísindauppgötvanirnar sem aldrei komust á blað út af því að við vorum að búa til 40 mismunandi orð yfir snjókomu. Það er svakalegt að hugsa til þess, en við erum líklegast mörgum kynslóðum á eftir þeim stað sem við gætum verið á, í þroska og menningarlegu uppeldi – út af veðrinu.

Umræður um veðrið eru ekki mjög uppbyggilegar en mikið svakalega geta þær verið skemmtilegar. Frasar eins og „hann var búinn að spá því að hann myndi rigna“, „hann átti að snúa sér með kvöldinu“ og „hann er að rífa þetta af sér“ eru kannski eftir allt saman sannkallaðar perlur íslenskrar tungu og menningar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×