Innlent

Segir ekki hægt að setja erindi kjararáðs í ruslið og yppta öxlum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar Vísir/Vilhelm
Formaður félags forstöðumanna ríkisstofnana segir að þingmenn séu að reyna að skapa sér pólitíska stöðu með því að leggja niður kjararáð og að tugir erinda sitji enn eftir hjá ráðinu.

Frumvarp um að kjararáð verði lagt niður fer til annarrar umræðu á Alþingi í dag og ef það verður samþykkt fyrir þinglok verður kjararáð óvirkt frá næstu mánaðamótum. Ljóst er þó að einhver fjöldi erinda liggur fyrir ráðinu til afgreiðslu og er greint frá því í Morgunblaðinu í dag að á meðal þeirra séu erindi frá forstöðumönnum ríkisstofnana. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar og formaður félags forstöðumannaríkisstofnana, telur að erindin skipti tugum.

„Þessi sjónarmið sem ég er að setja fram núna koma til af því að það er verið að leggja fyrir þingið núna frumvarp um að kjararáð verði lagt niður eftir sína dæmalausu tilvist og frammistöðu. Við erum raunverulega að vara við því að hjá ráðinu liggja fjöldi erinda frá forstöðumönnum ríkisstofnana sem hafa átt undir kjararáð að sækja sem eru óafgreidd og það hljóta að þurfa að taka afstöðu til þess hvað verður um þau eða afgreiða þau áður en ráðið verður lagt niður,“ segir Gissur í samtali við Vísi.

Ekkert stjórnvald geti hent erindum í ruslið

Störf kjararáðs hafa verið afar umdeild undanfarin misseri og telur Gissur líklegt að þingmenn vilji kaupa sér velvild almennings með því að leggja ráðið niður.

„Alþingismenn fengu náttúrulega mjög ríflega hækkun nú á síðasta vetri. Þar sem var bæði verið að svara launarýrnum með tilliti til verðlags og hækka laun þeirra. Það er kannski í sjálfu sér enginn vilji til að halda áfram eftir að þessi afgreiðsla liggur fyrir en það eru þarna tugir einstaklingar sem sitja undir með sín óafgreiddu erindi,“ segir hann.

„Þeir eru náttúrulega að reyna að skapa sér einhverja pólitíska stöðu með því að leggja þetta ráð niður en eftir situr að það hefur haft einhver verkefni og það verður að ljúka þeim áður en annað tekur við. Ég get ekki séð hvernig það er hægt að setja öll erindi sem hjá Kjararáði liggja í ruslafötuna og yppta öxlum. Þannig getur ekkert stjórnvald hagað sér.“



Önnur bið framundan

Verði kjararáð lagt af munu kjör þeirra sem falla undir ráðið sett undir kjara- og mannauðssýslu ríkisins, en Gissur segir fyrirhugað verklega ekki vera nógu skýrt.

„Nei það er ekki búið að hugsa það til enda og ljóst að það tekur við önnur óþolandi bið við að fá þessi erindi afgreidd ef það er ætlun manna að láta sem ekkert sé og leyfa þessu stjórnvaldi bara að leggja niður lappirnar án þess að klára sín mál.“


Tengdar fréttir

Forstjóri Hörpu fékk 20 prósenta launahækkun

Stjórnin veitti nýráðnum forstjóra Hörpu launahækkun upp á rúm 20 pró- sent síðasta sumar. Stjórnin var nýkomin með ákvörðunarvald yfir launum forstjórans sem áður heyrði undir kjararáð. Ráðið hafði ákvarðað forstjóranum 1,3 milljónir í mánaðarlaun nokkrum mánuðum fyrr, í febrúar 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×