Fótbolti

Rúllar Gylfa upp í borðtennis og þakkar guði fyrir skort á golfvöllum

Arnar Björnsson í Kabardinka skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson var frábær á síðustu leiktíð með Burnley í ensku úrvalsdeildinni. Hlutverk hans með landsliðinu verður alltaf stærra og stærra. Hann er ánægður með aðstöðuna sem liðinu eru búin. 

„Við erum bara inná hóteli og þú veist örugglega betur hvernig þessi staður er en ég. Veðrið og æfingasvæðið er mjög gott og hótelið fínt þannig að það er allt í toppstandi hjá okkur“. 

Er þetta sambærilegt við það sem var á Evrópumótinu í Frakklandi? 

„Hótelið er töluvert stærra en þetta er kannski svipað. Við erum með fjöllin hérna og gott útsýni af hótelinu þannig að þetta er kannski svipaður fílingur. Veðrið er frábært líka og það skemmir ekki fyrir“. 

Síðasta leiktíð hjá þér var frábær og þú ert alltaf að verða stærri og sterkari í þessu landsliði? 

„Mér líður mjög vel og þetta er alltaf stærsti draumur allra knattspyrnumanna að fá að spila á HM og vera í góðu formi eins og ég er í er bara plús. Ég hlakka mikið til að takast á við Argentínu“. 

Hvað ætlar þú svo að gera í dag? 

„Ætli ég fari ekki í borðtennis, vinni Gylfa svona fimm, sex sinnum. Svo horfi ég kannski á bíómynd í kvöld og svo í rúmið“. Getur Gylfi eitthvað í borðtennis? 

„Hann er góður en bara ekki nógu góður. Hann er betri í golfi, hann má eiga það. Það er enginn golfvöllur hérna, ég þakka Guði fyrir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×