Fótbolti

Lukaku ekki með gegn Englendingum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lukaku er næst markahæstur á HM enn sem komið er
Lukaku er næst markahæstur á HM enn sem komið er Vísir/getty
Framherjinn Romelu Lukaku verður ekki með Belgum gegn Englendingum í lokaleik liðanna í riðlakeppninni á HM í Rússlandi vegna meiðsla.

Bæði Belgar og Englendingar eru nú þegar komnir áfram í 16-liða úrslitin og snýst leikurinn eingöngu um það hvort liðið verði í toppsæti riðilsins.

Lukaku hefur ekki æft með Belgum í vikunni vegna meiðsla á ökkla sem hann hlaut í 5-2 sigrinum á Túnis um síðustu helgi.

Á blaðamannafundi fyrir leikinn í dag sagði landsliðsþjálfarinn Roberto Martinez að Lukaku yrði ekki með en hann hefði ekki áhyggjur af framherjanum sterka hvað framhaldið varðar.

„Hann fékk högg gegn Túnis og það er líklega einum degi of snemmt að spila honum á fimmtudag en ég held hann verði ekki lengur frá en það.“

Lukaku er í baráttu við framherja Englendinga, Harry Kane, um gullskóinn á HM. Lukaku er kominn með fjögur mörk en Kane fimm.

Margir enskir stuðningsmenn hafa sagt á Twitter að þeir vilji að Englendingar tapi leiknum á morgun því liðið sem lendir í öðru sæti ætti að fá auðveldari leið í úrslitaleikinn.

Útsláttarkeppninni er raðað þannig upp að öðru megin við úrslitaleikinn eru lið á borð við Portúgal, Úrúgvæ, Argentínu, Frakkland og Brasilíu á meðan hinu megin eru meðal annars Danir, Rússar, Svíar og Sviss, andstæðingar sem á pappír ættu að vera auðveldari viðureignar.

Liðin munu mæta annað hvort Japan, Senegal eða Kólumbíu í 16-liða úrslitunum. Lokaumferð H riðils er leikin klukkan 14:00 á morgun og leikir G riðils hefjast klukkan 18:00.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×