Erlent

Bandarísk yfirvöld segjast hafa skilað 500 börnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjölskyldur eiga skilið að vera saman, segir á kröfuspjaldi í mótmælum gegn innflytjendastefnu Trump forseta. Byrjað var að skilja að fjölskyldur eftir að ríkisstjórn hans ákvað að ákæra alla sem koma ólöglega til landsins.
Fjölskyldur eiga skilið að vera saman, segir á kröfuspjaldi í mótmælum gegn innflytjendastefnu Trump forseta. Byrjað var að skilja að fjölskyldur eftir að ríkisstjórn hans ákvað að ákæra alla sem koma ólöglega til landsins. Vísir/EPA
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segist hafa komið rúmlega fimm hundruð börnum aftur í hendur foreldra sinna eftir að þau höfðu verið aðskilin við komuna til Bandaríkjanna. Enn eru þó rúmlega tvö þúsund börn í haldi bandarískra yfirvalda vegna stefnu ríkisstjórnar Donalds Trump forseta um að ákæra alla sem koma ólöglega yfir suðurlandamærin að Mexíkó.

Rúmlega 2.500 börn hafa verið skilin frá foreldrum sínum frá því að nýja stefnan tók gildi í byrjun maí. Ráðuneytið sagði í gær að 522 hefði nú verið komið til foreldra sinna. Sextán til viðbótar verði skilið næsta sólahringinn, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna (HHS) segist nú vinna með fleiri stofnunum að því að sameina fjölskyldur sem var sundrað vegna harðlínustefnu Trump um að sækja þá sem koma ólöglega inn í landið til saka. Ferli væri í gangi til að tryggja að foreldrar gætu komist að því hvar börnin væru og náð sambandi við þau.

Flest börnin eru frá löndum Mið-Ameríku, fyrst og fremst Gvatemala, Hondúras og El Salvador. Heilbrigðisstofnunin segir að einhver hluti þeirra 2.000 barna sem enn eru í vörslu yfirvalda verði áfram í haldi ef ekki er hægt að staðfesta fjölskyldutengsl eða ef foreldrið er talið hættulegt.


Tengdar fréttir

Óljóst hvenær fjölskyldur verða sameinaðar

Bandarískar alríkisstofnanir vita ekki í hvorn fótinn þær eiga að stíga eftir tilskipun Trump forseta í vikunni. Ríkisstjórnir reynir að nota hugtakið um aðskilnað fjölskyldna sem vopn gegn innflytjendum sem koma ólöglega til Bandaríkjanna.

Áfram er óvissa um stöðu 2.300 barna

Forsetinn skrifaði undir tilskipun sem bindur enda á að fjölskyldum sé tvístrað. Í tilskipuninni er ekki litið til þeirra barna sem þegar hafa verið tekin frá fjölskyldum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×