Innlent

Skora á stjórnvöld að banna rafrettureykingar á veitinga- og skemmtistöðum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
LÍ lýsir yfir sérstökum áhyggjum vegna viðkvæmra hópa í þessu tilliti, þ. á m. barna, fyrrverandi reykingafólks og einstaklinga með hjarta- og lungnasjúkdóma.
LÍ lýsir yfir sérstökum áhyggjum vegna viðkvæmra hópa í þessu tilliti, þ. á m. barna, fyrrverandi reykingafólks og einstaklinga með hjarta- og lungnasjúkdóma. Vísir/getty
Stjórn Læknafélags Íslands skorar á heilbrigðisráðherra að leggja fram lagabreytingartillögu við nýjum lögum um rafrettur. Leggur félagið til að reykingar rafrettna verði bannaðar á veitinga- og skemmtistöðum en breytingartillaga um bann þess efnis var felld við meðferð rafrettulaganna á Alþingi.

Telur félagið mikilvægt að sömu heilbrigðis- og forvarnarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi þegar kemur að reykingum á rafrettum og hefðbundnum sígarettum. Með öllu óásættanlegt sé að þeir sem ekki neyti nikótíns þurfi að anda að sér virku fíkni- og ávanabindandi efni með óbeinum reykingum á veitinga- og skemmtistöðum.

Þá lýsir LÍ yfir sérstökum áhyggjum vegna viðkvæmra hópa í þessu tilliti, þ. á m. barna, fyrrverandi reykingafólks og einstaklinga með hjarta- og lungnasjúkdóma. Telur félagið það ganga gegn settum lýðheilsumarkmiðum að reykingar rafrettna á veitinga- og skemmtistöðum hafi ekki verið bannaðar í hinum nýju lögum.

LÍ skorar því á heilbrigðisráðherra að leggja strax í upphafi næsta þings fram lagabreytingartillögu við framangreind lög þar sem bætt verði við grein um bann við notkun rafrettna á veitinga- og skemmtistöðum.

„Takist ekki með lagabreytingu að banna reykingar rafrettna á veitinga-og skemmtistöðum skorar stjórn Læknafélags Íslands á eigendur þessara staða að banna reykingar rafretta á stöðum sínum þegar nýju lögin ganga í gildi,“ segir enn fremur í yfirlýsingu, sem lesa má í heild hér.

Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um rafrettur varð að lögum við þinglok nú í júní. Frumvarpið setur ýmsar skorður á innflutning, sölu og dreifingu á rafrettum og efnum í þær og finsnt mörgum of langt gengið með frumvarpinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×